Erfiðleikar Steingríms Hermannssonar við myndun stjórnar sýna, að seint og sennilega alls ekki næst saman stjórn, sem getur setið langleiðina út kjörtímabilið. Einfaldast og fljótlegast er því að efna til kosninga sem fyrst og leyfa gömlu ofstjórninni að sitja á meðan.
Ekki er sérstök ástæða til að ætla, að ný ofstjórn eftir kosningar verði skárri en aðrar. Hins vegar má búast við, að hún endurspegli betur ríkjandi viðhorf og njóti því meira trausts hjá fólki. Slíkt þykir gott veganesti, þegar talið er, að grípa þurfi til stórræða.
Áhugi ýmissa stjórnmálamanna á nýrri stjórnarmyndun byggist ekki á því sjónarmiði, að nauðsynlegar séu aðgerðir í efnahagsmálum, heldur á hræðslu þeirra við kosningar. Þetta á einkum við um foringja Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Borgaraflokksins.
Af hálfu hins síðastnefnda hefur margoft komið í ljós, að flokkinn þyrstir í að komast í stjórn, nánast með hverjum, sem til þess fengist. Ráðherrastólar yrðu þá virðulegur undanfari að hinu margspáða andláti flokksins, auk hins fornkveðna, að frestur er á illu beztur.
Ofan á skeytingarleysi þjóðarinnar um Alþýðubandalagið, sem birtist í skoðanakönnunum, leggst svo formannsvandinn. Ólafur Ragnar Grímsson er umsetinn innanflokksóvinum, sem munu kenna honum sem formanni um ósigur flokksins í næstu kosningum.
Það var nokkuð sniðugt hugsað hjá Steingrími Hermannssyni að tefla upp á slíka veikleika og safna saman hræðslubandalagi allra flokkanna þriggja, sem ekki þola kosningar um þessar mundir, og fylkja þeim undir ofstjórnarstefnu og forsæti Framsóknarflokksins.
Dæmið byggðist á þeim styrk Framsóknarflokksins, að hann var eini flokkurinn af fyrirhuguðum fjórum stjórnarflokkum, sem gat látið sér standa á sama, hvort kosningar yrðu eða ekki. Samkvæmt valdataflsfræðum átti það að gefa Steingrími góða samningsaðstöðu.
Af ýmsum ástæðum gekk þetta ekki upp. Borgaraflokkurinn fann upp á þeim óskunda, að telja sér trú um, að hann gæti ráðið ferðinni með því að semja í allar áttir í senn. Auk þess átti formaðurinn sælar minningar úr húsi, sem hann hafði byggt við Bolholt.
Alþýðubandalagið sá líka, að ótækt væri að fara í stjórn með Steingrími, ef Kvennalistinn væri utan stjórnar með vinsælar hugmyndir um þjóðstjórn til bráðabirgða og snarlegar kosningar. Enda hefur formaður bandalagsins ekki getað dulið gremju sína.
Niðurstaða þessara hremminga varð sú, að formaður Framsóknarflokksins hefur talið sig tilneyddan að fara út í vafasamar hugmyndir um minnihlutastjórn, sem kæmi í gegn efnahagsofstjórn og síðan fjárlögum með einhvers konar hlutleysi utanstjórnarþingmanna.
Steingrímur telur sig hafa fordæmi fyrir slíku í ýmsum nágrannaríkjum. En hætt er við þungum róðri, ef áhyggjur hans af velferð nokkurra skuldugra frystihúsa Sambandsins leiða til myndunar stjórnar með A-flokkunum einum og aðeins 32 þingmenn.
Enginn heimsendir verður, þótt stjórnmálaflokkarnir haldi áfram enn um sinn að reyna að berja saman ríkisstjórn, sem ekki nýtur trausts úr kosningum. Altjend má vona, að þjóðin hafi í stjórnarkreppunni frið fyrir ýmissi ofstjórnaráráttu í efnahagsmálum.
Heppilegra væri að fá sem allra fyrst nýja ríkisstjórn með nýjan þingmeirihluta að baki sér, jafnvel þótt ástæðulaust sé að gera sér gyllivonir um afrek hennar.
Jónas Kristjánsson
DV