Hræsni á grafarbakka

Greinar

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar á Íslandi eru komnir á elliárin og eiga fyrir sér hægt andlát á næsta áratug. Þeir þjóna ekki þörfum kjósenda og eru ekki í stakk búnir til að taka upp slíka þjónustu í tæka tíð, áður en ný stjórnmálaöfl taka völdin í landinu.

Stjórnmálaflokkarnir eru þungar stofnanir með flóknum virðingarstigum og hagsmunatengslum. Valdastöðvar þeirra eru þéttskipaðar fólki, sem telur sig þurfa að vernda stöðu sína innan flokkanna, bæði hennar vegna og vegna áhrifa hennar úti í þjóðfélaginu.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi sigið úr 40% flokki niður í 30% flokk, hafa margir áhrifamenn þar enn þann dag í dag minni áhyggjur af því heldur en hinu, hvort ýmsir fyrrverandi eða núverandi flokksfélagar eigi skilið að vera þar með í ráðum eða ekki.

Þeir, sem ríkjum ráða í stjórnmálaflokkum, hafa meiri hag af að sitja áfram efst á haugnum, þótt hann fari minnkandi, heldur en þeir hefðu af stækkandi haug, ef einhverjir aðrir en þeir tækju sér sæti efst á honum. Þetta er sjálft tregðulögmál stjórnmálaflokkanna.

Þróunin mun ekki stöðvast við, að Sjálfstæðisflokkur hefur sigið úr 40% í 30% fylgi, Framsóknarflokkur úr 25% í 20%, Alþýðubandalag úr 20% í 10% og Alþýðuflokkur úr 15% í 10% fylgi. Tímans tönn nagar áfram hægt og bítandi, en með afturkippum inn á milli.

Þegar skýringa er leitað á sókn Kvennalistans, ekki aðeins í atkvæði frá Alþýðubandalaginu, heldur upp á síðkastið í vaxandi mæli frá Sjálfstæðisflokknum, nægir ekki að vísa til stefnumála. Sífellda fylgisránið stafar ekki nema að hluta af aukinni félagshyggju þjóðarinnar.

Rangt væri einnig að telja fylgisvöxt Kvennalistans stafa af, að hann hafi horfið frá marxismanum, sem einkennir alla gömlu flokkana ­ mest Sjálfstæðisflokkinn ­ og felst í að telja hagkerfið vera grunn að öðrum kerfum þjóðfélagsins. Listinn líkist öðrum í þessu efni.

Miklu nær er að bera rísandi gengi Kvennalista saman við hnígandi gengi Borgaraflokks. Síðari flokkurinn er með hefðbundnu sniði og virðist, ef honum endist aldur til, ætla að efla þátt sinn í hinni hefðbundnu valdastreitu flokkanna, sem kjósendur eru einmitt að hafna.

Smám saman eru kjósendur að átta sig á, að hefðbundin stjórnmál á Íslandi byggjast á takmarkalítilli hræsni. Á vegum flokka eru samdar stefnuskrár, sem aldrei er reynt að framkvæma. Í þess stað fer orkan í stríð um peninga og völd, hagsmuni og fyrirgreiðslur.

Sumir flokkar þykjast til dæmis styðja skattgreiðendur og neytendur. Sömu flokkar taka virkan þátt í og hafa jafnvel forustu um að magna ofbeldið, sem þessir víðtæku hagsmunir þurfa að sæta af hálfu sérhagsmuna, er sitja að kjötkötlum í skjóli flokkanna.

Stækkandi hópur kjósenda hafnar stjórnmálaflokkum, sem eru á kafi í bankaráðum, bankastjóraráðningum, sjóðakerfum, arðsömum millifærslum, stórgjöfum af almannafé til gæludýra sinna og eflingu eigin miðstjórnarvalds til að geta millifært ennþá meira.

Ekki hefur enn komið í ljós, að Kvennalistinn taki þátt í hinu umfangsmikla sjónhverfingakerfi hræsninnar. Sumir telja, að hann muni smám saman gera það, þegar hann fái völd, því að allt vald spilli. Að minnsta kosti nýtur listinn þess nú, að vera fjarri fnyknum.

Hver sem framtíð Kvennalistans verður, er líklegt, að stjórnmálin erfi samtök, er hafna eins og hann þáttöku í bralli, sem kjósendur eru að byrja að skilja.

Jónas Kristjánsson

DV