Jafnvel Sýrlandsstjórn þykist vera að berjast gegn hryðjuverkum, þegar hún ofsækir stjórnarandstæðinga í landinu. Eftir stríðið í Afganistan stimpla nánast allar harðstjórnir heimsins andstæðinga sína sem hryðjuverkamenn. Þannig sækjast þær eftir náðarfaðmi Bandaríkjanna.
Allir kúgaðir minnihlutahópar fá núna stimpil hryðjuverkafólks. Kínastjórn ofsækir fólk í Tíbet og Sinkíang og segir það vera hryðjuverkamenn. Rússlandsstjórn ofsækir fólk í Tsjetsjeníu og segir það vera hryðjuverkamenn. Ríkisrekin hryðjuverk eru afsökuð með slíkum stimpli.
Móðir allrar hræsni af þessu tagi er samráð Bandaríkjanna og Ísraels um að kalla Palestínumenn hryðjuverkamenn. Það er þjóð, sem Ísraelsríki ofsækir linnulaust á allan hátt með markvissum aðgerðum til að niðurlægja allan almenning og gera honum lífið í landinu óbærilegt með öllu.
Þetta eru raunar mestu hryðjuverkaríki heimsins. Bandaríkin reka hryðjuverkaskóla í Fort Benning fyrir upprennandi herforingja og leynilögreglumenn frá suðurhluta álfunnar. Nemendur skólans hafa margfalt fleiri morð á samvizkunni en stuðningsmenn Osama bin Laden.
Styrjöld Bandaríkjanna í Afganistan er ekki barátta gegn hryðjuverkum í heiminum. Hún er hefndarstríð einnar hryðjuverkastjórnar gegn lausbeizluðum hryðjuverkahópum, sem eru hættulegir Vesturlöndum. Þetta stríð var nauðsynlegt, en það er ekki stríð gegn hryðjuverkum.
Talibanar voru slæmir stjórnarherrar, en það eru arftakar þeirra einnig. Að sumu leyti er ástandið í Afganistan betra en það var fyrir stríð og að sumu leyti er það verra. Áhrif vestrænna eftirlitssveita ná lítið lengra en til höfuðborgarinnar. Annars staðar leika glæpamenn lausum hala.
Reynt er að kynna Norðurbandalagið sem eins konar frelsissveitir í Afganistan. Í rauninni er þetta upp til hópa glæpalýður, sem lifir á ránum og sölu fíkniefna. Þeir taka bíla og matvæli hjálparstofnana traustataki. Talibanar voru sumpart skárri, því að þeir voru andvígir sölu fíkniefna.
Þannig eru mál ekki eins svarthvít og bandarískir fjölmiðlar vilja vera láta, er þeir fjalla um svokallaða baráttu sinna manna gegn hryðjuverkum í heiminum. Fjölmiðlarnir eru tryggir stjórnvöldum og hallir undir hagsmunagæzlu hennar í útlöndum, vandlega sveipaða í hræsni.
Nú síðast er Íran gagnrýnt fyrir að hafa skotið skjólshúsi yfir landflótta liðsmenn Osama bin Laden. Staðreyndin er hins vegar sú, að Íranir eru shítar og hafa sem slíkir alltaf verið andvígir Talibönum sem róttækum súnnítum, allt frá þeim tíma, er Bandaríkin komu Talibönum til valda sællar minningar.
Enn ein hræsnin er sú, að handteknir stuðningsmenn Osama bin Laden séu ekki hermenn, heldur hryðjuverkamenn, sem alþjóðlegir sáttmálar um meðferð stríðsfanga nái ekki yfir. Þannig er Bandaríkjastjórn sjálf orðin fangi eigin áróðursstríðs og farin að brjóta alþjóðlegar siðareglur.
Af öllu þessu má ráða, að stríðið í Afganistan var ekki barátta góðs og ills. Það var hagsmunastríð gegn ákveðinni tegund hryðjuverka, sem beinist gegn Vesturlöndum, einkum Bandaríkjunum. Sem slíkt var stríðið nauðsynlegt, þótt efast megi um gildi sumra aðgerða, sem nú standa yfir.
Stríðið við Afganistan hefur verið vinsælt. Það hefur gefið hræsninni greiðari leið að hjörtum hinna trúgjörnu og magnað hana sem helzta hreyfiafl heimsmála.
Jónas Kristjánsson
FB