Hrafninn flýgur

Greinar

Ekkert var ofsagt í ummælum Hrafns Gunnlaugssonar um ríkisútvarp allra landsmanna. Ástand stofnunarinnar er lakara en hann lýsti því í þrautleiðinlegum og innhverfum sjónvarpsþætti, sem starfsmenn stofnunarinnar töldu eiga erindi við landsmenn á bezta hlustunartíma.

Hrafn gat ekki virðingarleysis Ríkisútvarpsins gagnvart íslenzku talmáli, sem sést af því, að það hefur eingöngu einn málfarsráðunaut, þótt stóru dagblöðin tvö hafi á sínum snærum tíu manns í fullu starfi og með mikið úrskurðarvald við að vernda íslenzkt ritmál.

Hrafn sagði, að Ríkisútvarpið væri stöðnuð stofnun. Það er hverju orði sannara, en segir þó ekki allan sannleikann. Réttara væri að lýsa stofnuninni sem steinrunninni. Hún væri gersamlega bjargarlaus, ef hún væri tekin úr vernduðu umhverfi þvingaðra afnotagjalda.

Hrafn sagði Ríkisútvarpið þjást af atgervisflótta. Það er fremur vansagt en ofsagt, eins og sést bezt af, að þar þarf að minnsta kosti tvo menn til að sinna sem svarar hverju einu starfi á Stöð 2. Í mannafla er stofnunin engan veginn hæf til samanburðar við umhverfi sitt.

Þann fyrirvara má þó hafa á lýsingunni, að hún á misvel við einstakar deildir Ríkisútvarpsins. Fréttastofa Gufunnar er að mörgu leyti ágæt deild, sem þjónar vel hlutverki sínu, en er reyrð í viðjar úreltra vinnureglna frá tímum stofnanalegri fjölmiðlunar en nú tíðkast.

Við gagnrýni Hrafns má bæta með því að segja Ríkisútvarpið vera algera tímaskekkju. Það stendur sig ekki frá sjónarhóli markaðshyggju og ekki heldur frá öðrum sjónarhóli, svo sem varðveizlu íslenzkrar tungu. Það ber flest af kunnum einkennum andvana einokunarstofnunar.

Ríkisútvarpið er fyrir löngu hætt að vera eign allra landsmanna, ef það hefur einhvern tíma verið það. Það hefur verið að breytast í eins konar sjálfseignarstofnun starfsmanna, svo sem sést af formi og skipulagi þrautleiðinlegrar og innhverfrar þáttaraðar þess um sjálft sig.

Eðlilegt er, að starfsmannafélag slíkrar stofnunar reki upp ramakvein, þegar hluti sannleikans er sagður um stofnunina og frammistöðu starfsmanna. Einnig er eðlilegt, að það mótmæli sjálfsögðum tillögum Hrafns um, að dagskrárgerð verði boðin út í meira mæli en áður.

Í heilbrigðum fyrirtækjum er fólk rekið fyrir það, sem það gerir eða gerir ekki. Það er ekki rekið fyrir rangar skoðanir og þaðan af síður fyrir réttar skoðanir. Brottrekstrarsök Hrafns er táknræn sjálfslýsing afvegaleiddrar stofnunar, sem er upptekin af sjálfri sér.

Það er dæmigert fyrir Ríkisútvarpið, að sem stofnun þolir það ekki að heyra sannleikann eða hluta sannleikans um það sjálft. Það er orðið svo háð hinu verndaða umhverfi í gróðurhúsi þvingaðra afnotagjalda, að það þolir alls ekki tjáningarfrelsi innanhússmanns.

Hrafn Gunnlaugsson vex af brottrekstrinum, en Ríkisútvarpið minnkar. Brottreksturinn er þó ekki með öllu illur, því að hann mun opna augu fleiri manna fyrir því, að stofnunin er tímaskekkja, sem leggur óþarfa byrði á skattgreiðendur á tímum nægs framboðs af fjölmiðlun.

Þegar Ríkisútvarpið loksins verður selt, er rétt að gera það í hlutum, svo að eitthvað fáist fyrir þá hluta þess, sem markaðsgildi hafa, svo sem fréttastofur útvarps og sjónvarps. Fæstar aðrar deildir þess eru söluhæfar og verða væntanlega lagðar niður í fyllingu tímans.

Vonandi flýtir frumhlaup Ríkisútvarpsins fyrir því, að tímaskekkjan hverfi af vettvangi, skattgreiðendum til hægðarauka og frjálsri notkun fjölmiðla til framdráttar.

Jónas Kristjánsson

DV