Hraundalur

Frá Grímsstöðum á Mýrum um Hraundal að Fjallakofanum við Sandvatn.

Hraunrétt er nálægt mynni dalsins, hlaðin úr hrauni utan í jaðri hrauns. Þetta var fyrr á öldum helzta rétt landsins, en hefur látið á sjá með árunum, þarfnast endurgerðar. Áður lá þjóðleið um sunnanverðan dalinn, Heiðarvegur, frá Syðri-Hraundal um Liturstaðahlíð og Heiðarsund að Rauðukúlu og síðan austur með Gljúfurá í Norðurárdal. Nú er farið frá Nyrðri-Hraundal um norðanverðan dalinn og Rauðhálsa. Töluverður skógur er á þeirri leið og einnig er gróðursælt, þegar komið er upp fyrir Rauðhálsa. Jeppafært er inn að Rauðhálsum, en að öðru leyti er leiðin ekki fær bílum fyrr en komið er suður fyrir Lambafell.

Förum frá Grímsstöðum í 100 metra hæð. Úr réttinni við bæinn förum við ofan túna undir Grímsstaðamúla til norðausturs og niður á jeppaveg undir múlanum. Förum með veginum um Hraundalshraun að mynni Hraundals. Þar beygjum við af slóðinni til norðurs og síðan til austurs inn Hraundal. Förum þar undir Svarfhólsmúla að norðan, framhjá Hraunrétt, þar sem við æjum. Síðan áfram um Selhlíð undir Selfjalli að Rauðhálsum. Þar förum við norður yfir skarðið vestan Rauðhálsa og síðan vestur og norður fyrir Slýjadalstjörn norðan hálsins. Áfram förum við í norðaustur um Slýjadal að Lambafelli og síðan sunnan og austan fellsins að jeppavegi um Langadal. Förum til norðurs með þeim vegi að Fjallakofanum við Sandvatn, í 200 metra hæð.

27,9 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Grímsstaðir: N64 41.836 W21 56.604.
Fjallakofinn: N64 45.463 W21 51.351.

Nálægir ferlar: Mýravegur, Múlavegur, Sópandaskarð.
Nálægar leiðir: Hrosshyrna, Skarðheiðarvegur, Klif.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson