Forvitnileg eru fyrirmæli Umhverfisstofnunar til sundlaugargesta, mismunandi eftir þjóðerni. Enda eru sundlaugar sums staðar notaðar til að þvo af sér skítinn. Dönum er sagt að þvo sér áður. Bretar, Þjóðverjar og Íslendingar eru líklega ekki eins hreinlátir. Þeim er sagt að þvo sér vandlega. Frakkar eru svo sér á parti, því að þeim er sagt að þvo sér með sápu. Kannski stafar það af franskri sérvizku um tilgangsleysi sápu. Gaman væri að fá skýrslu Umhverfisstofnunar um allan þennan mun. Líklega skiptir þetta þó litlu máli, því að upplýst er orðið, að afreksfólk í sundi sé vant að pissa í laugarnar.