Hreinsunaræði barnaverndarnefnda

Greinar

Barnaverndarnefndir hafa alltaf verið til vandræða, sumar verri en aðrar, en allar slæmar. Áratugum saman hafa þær verið tilefni frétta, sem allar eru slæmar, fela í sér, að barnaverndarnefndir hafi gripið til aðgerða, sem gera illt verra. Þær rífa börn af fólki og framleiða vandræðafólk.

Sjálf hugmyndafræði barnaverndarnefnda er röng. Það getur ekki verið rétt, að stjórnmálaflokkar í hverju sveitarfélagi skipi fólk hlutfallslega í nefnd til að ráðskast með börn út og suður. Í slíkar nefndir velst alltaf stjórnlynt fólk, sem vill hreinsa vel út úr skúmaskotum á botni samfélagsins.

Barnaverndarnefndir bæta böl með því að búa til annað meira. Með aðgerðum þeirra verða til keðjuverkanir, sem stuðla að erfiðleikum barna, gera þau að vandræðaunglingum og síðan að helztu viðfangsefnum lögreglu og dómstóla. Miklu nær er að fylgjast betur með foreldrum en rífa börnin af þeim.

Barnaverndarnefndin á Akureyri hefur mest verið í fréttum undanfarið, ekki af því að hún sé verri en aðrar, heldur af því að hún sýnir vandann í hnotskurn. Hún tók 90 stunda gamalt barn af móður á fæðingardeild sjúkrahúss og tveggja ára son hennar að auki, af því að þeim væri hætta búin.

Þetta er auðvitað kolruglað. Tveggja ára sonurinn hafði verið hjá foreldrum sínum frá fæðingu, án þess að yfir því væri kvartað og án þess að nágrannar sæju neitt athugavert. Í alvöruþjóðfélagi væri barnaverndarnefndin tekin föst og látin svara til saka fyrir brenglað og ósiðlegt athæfi.

Sama barnaverndarnefnd lét til skarar skríða nokkrum dögum síðar og tók fimm ára gamlan dreng af ömmu sinni á þeim forsendum, að amman hefði greinzt með þunglyndi fyrir 20 árum. Þannig rekur hvað annað í offorsi, valdníðslu og hroka nefndarinnar á Akureyri. Eins og annars staðar í landinu.

Barnaverndarnefndir á að leggja niður, ekki bara nefndina á Akureyri, heldur allar slíkar nefndir, af því að hugsunin að baki þeirra er röng. Ekki er hægt að fela fólki með félagslegt hreinlætisæði, en hvorki með mannlegan skilning né víðsýni, að ráðskast með fólk á botni samfélagsins.

Í stað barnaverndarnefnda þarf að finna skilningsríka aðila, sem geta reynt að vinna að vandamálum fátækra og erfiðra foreldra, svo að líf barna þeirra verði bærilegra en ella.

DV