Hreinsunareldur?

Greinar

Markmið sameiningar jafnaðarmanna hefur lækkað niður í sögulega sátt Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og er um það bil að lækka enn frekar niður í kosningabandalag nokkurra þingmanna um atvinnu sína á tímum einstæðs fylgishruns í stjórnarandstöðu.

Langur vegur er frá gömlum draumum um, að samfylkingu félagshyggjuflokka í borgarstjórn Reykjavíkur megi yfirfæra á landsvísu. Strax varð ljóst, að Framsóknarflokkurinn taldi Reykjavík tveggja messa virði, en vill að öðru leyti fátt af A-flokkunum vita.

Langur vegur er frá draumum sumra um, að yfirfæra megi sigra jafnaðarmanna víðs vegar um Vestur-Evrópu á íslenzkar aðstæður. Langdregin og loðin stefnuskrá sameiningarframboðsins hindraði þetta strax, auk þess sem sigurleiðtogi hefur aldrei verið í augsýn.

Um þessar mundir eru A-flokkarnir að bíta af sér Kvennalistann, sem hafa átti til skrauts í samkvæminu. Þegar þeir áttuðu sig á, að skrautið var ekki ókeypis, fór áhugi þeirra að daprast, enda var hann í ósamræmi við óskir þingmanna um framhald á atvinnu sinni.

Á liðnu hausti hefur samfylkingin staðið í ströngu við túlkun og málsvörn óvinsællar stefnuskrár, við ósæmilegt skæklatog um hlutafjáreign einstakra framboðsaðila í samfylkingunni, við sams konar skæklatog um stöðu einstakra þingmanna. Þessi harmleikur stendur enn.

Um leið hefur hver skoðanakönnunin á fætur annarri sýnt, að samfylkingin nýtur lítils stuðnings kjósenda. Hún fær í mesta lagi 20% fylgi og tólf þingmenn, það er að segja sögulegt lágmark. Enda stendur metnaður hennar ekki lengur til meiri stjórnmálaframa að sinni.

Enn alvarlegra er, að samfylkingin hefur aðeins 8% fylgi meðal yngstu kjósendanna og er þannig að sigla inn í framtíðina sem fámennur sértrúarflokkur. Ekki einu sinni þessi staðreynd fær adrenalínið til að renna í æðum dasaðra og máttvana samfylkingarsinna.

Þetta gerist, þegar flokkar samfylkingarinnar eru allir í stjórnarandstöðu og ættu að geta nýtt sér hefðbundna fylgisaukningu slíkra flokka. Í staðinn hefur þeim tekizt að ýta frá sér Evrópukrötum, vaðmálssósíalistum og fífilbrekku-konum og er orðin að fámennum klúbbi.

Eftir sitja hinir bæjarradikölu höfundar sameiningarinnar og þurfa nú að þola togstreitu þingmanna um pláss í reiða strandskips, þar sem hinir neðstu munu sogast í burtu með útfalli kosninganna. Ekkert stendur eftir af væntingunum, sem tengdust Reykjavíkurlistanum.

Í hremmingunum halda sameiningarmenn í vonina um, að ósigurinn í næstu kosningum verði ekki annað en nauðsynlegur hreinsunareldur hinnar sögulegu sáttar A-flokkanna tveggja. Í rústum dómsdags finnist upphafspunktur göngunnar inn á óþekkta ódáinsakra.

Með þessari metnaðarlitlu óskhyggju eru sameiningarsinnar að fresta umtalsverðum þætti uppgjörsins við fortíðina fram yfir kosningar, af því að þær einar séu færar um að sýna fram á, að nýir leiðtogar þurfi að taka við af slagsmálahundum líðandi stundar.

Í leiðurum þessa blaðs hefur löngum verið spáð, að sameiningin mundi koðna niður í farvegi sögulegrar sáttar Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og að fylgi muni kvarnast í aðrar áttir. Þetta er allt að koma í ljós og reynist ekki vera ungu fólki girnilegur kostur.

Ef til vill er þetta ferli eins konar söguleg nauðsyn, eins konar goðsaga um dómsdag og upprisu. Ef til vill leynist langtímabirta að baki skammtímahrunsins.

Jónas Kristjánsson

DV