Ferðamenn á norðurleið eiga kost á ýmsum matstöðum við hringveginn eða í nágrenni hans. Sameiginlegt með þeim flestum er verðið, sem er tiltölulega hátt, ef til dæmis er miðað við gæðastað á borð við Laugaás í Reykjavík.
Lengra nær samanburðurinn ekki, því að staðir þessir eru gjörólíkir að öðru leyti. Flestir eru fráhrindandi og örfáir notalegir. Nokkrir búa yfir fagmennsku í eldhúsi, en í flestum er hvorki beitt fagmennsku né tilfinningu. Það er því afar misjafnt, sem ferðamaðurinn fær fyrir peninginn.
Blönduskálinn
Blönduskálinn er dæmigerður áningarstaður við hringveginn. Hann er benzínstöð, sem smám saman hefur vaxið upp í að hafa mat á boðstólum, þótt mest áherzla sé lögð á ruslfæði, eins og hvarvetna við þjóðvegi landsins.
Blönduskálinn er ekki aðlaðandi, fremur en aðrir slíkir skálar. Kappklæddir útlendir ferðamenn sitja á einföldum stálstólum við einföld stálborð og velta fyrir sér, hvernig þeim datt í hug að fara á hjara veraldar. Þetta gæti verið í fangabúðum í Síberíu. Samt eru pottablóm í gluggum.
Réttur dagsins var aðeins einn. Það var soðinn lax með kartöflum og óbræddu smjöri í álpappír. Laxinn var allt of lengi soðinn, greinilega án nokkurrar minnstu þekkingar á matreiðslu eða tifinningar fyrir henni. Laxinn varð þurr sem túnfiskur, raunar eins og tíðkaðist hér í veitingahúsum í gamla daga.
Laxinum fylgdi sæmileg súpa og kaffi. Þetta kostaði 1.180 krónur.Það finnst mér nokkuð mikið miðað við útlit staðarins og eldamennsku, en er auðvitað í stíl við það, sem ferðamenn eru látnir sæta hvarvetna á leið þeirra um landið.
Staðarskáli
Staðarskáli hefur mér löngum þótt betri en margir aðrir áningarstaðir við þjóðveginn. Ræður þar mestu um, að eigandinn er á stöðugu vakki til að líta eftir, að allt sé í lagi. Margt fer nefnilega úr skorðum, ef veitingamaður fer í forstjóraleik.
Staðarskáli er snyrtilegri en flestir áningarstaðir, þótt hann sé stór og þröng sé oft á þingi. Miklu máli skiptir, að skilið er á milli sjoppuafgreiðslunnar og matarafgreiðslunnar.
Þá hefur Staðarskáli þá sérstöðu, að þar er oft lærður kokkur við eldavélina. Það munar töluverðu, svo sem ég komast að raun um, þegar ég var síðast þar á ferð um daginn.
Einn af réttum dagsins var viðarkola-reyksteikt lambakjöt, mjög gott og skemmtilegt. Mér kom raunar mjög á óvart, hvað þessi réttur var góður. Viðarkolin gáfu kjötinu æsilegan keim. Og óvenjulegur var rétturinn óneitanlega, gott dæmi um, að ekki hafa enn verið fullreyndir allir möguleikar á að venja fólk við lambakjötsát.
Súpa og kaffi voru innifalin í verði lambakjötsins á 1.150 krónur. Það er hagstætt í samanburði við illa eldaðan laxinn á 1.180 krónur í Blönduskála. Auk þess var í Staðarskála hægt að velja sér ódýrari mat, gúllas á 990 krónur og djúpsteikt ýsuflök á 790 krónur, hvort tveggja með súpu og kaffi.
Þetta er nokkurn veginn sama verð og í Laugaási í Reykjavík og lægra en gerist og gengur við hringveginn.
Dalakofinn
Ef vikið er út af hringveginum, má finna athyglisverðar matstofur. Ein þeirra er Dalakofinn á Sauðárkróki, þar sem boðið er upp á mat í notalegu umhverfi og við nokkuð góða þjónustu.
Húsbúnaður er vandaður í Dalakofanum, málmrörastólar með áklæði og ber tréborð með diskamottum. Á borðum eru gerviblóm og fremur þykkar pappírsþurrkur. Á veggjum hanga gamlar ljósmyndir af Sauðárkróki.
Í framhaldi af veitingasalnum, sem rúmar um 40 manns, er um 20 manna garðstofa undir glerþaki. Þar er gengt út í garð, þar sem sett eru út borð í góðviðri. Þetta er hinn notalegasti staður á hlýju sumarkvöldi.
Matreiðslan var veiki punkturinn, greinilega hvorki framin af tilfinningu né lærdómi. Blómkálssúpa var heit og var það hið eina jákvæða við hana. Kaffi eftir matinn var í lagi, borið fram með konfektmolum.
Steikt ýsuflök voru borin fram með frönskum kartöflum, hrásalati og remúlaði, gamalkunnu formúlumeðlæti. Þau voru mjög hrikalega þakin raspi, afar þunn og grimmdarlega steikt. Ég borðaði þau af óbilandi hugsjón fræðimannsáhugans, en hefði aldrei snert á þeim sem ferðamaður.
Þetta virtist hafa verið fryst vara, sem síðan hafði verið látin liggja allt of lengi í örbylgjuofni. Ég átti von á betri fiski í útgerðarbæ sem þessum. Sjaldan hef ég raunar fengið öllu verri fisk, enda var hann líklega úr pökkum tilbúinna rétta, sem ætlaðir eru varnarlausum skólabörnum og föngum í Bandaríkjunum.
Þetta hefur þá verið skólabókardæmi um svokallaðar “unnar” fiskafurðir, útflutningsstolt Íslendinga, sem hampað er á kostnað “óunnins” fisks, en það er nýyrði yfir ætan fisk ferskan.
Raspfiskur með súpu og kaffi kostaði 890 krónur. Einnig var hægt að fá lambakótilettur á 1290 krónur og hangikjöt á 1350 krónur. Þetta er svipað verð og gildir við hringveginn.
Í Dalakofanum var einnig sérréttaseðill með nokkrum dýrari réttum, svo og vínlisti, þar sem eingöngu var að finna léleg vín.
Dalakofinn hefur stigið hálft skref frá hversdagsleika ferðamannastaða. Húsakynnin eru hugguleg. En það kostar lítið sem ekkert til viðbótar að elda matinn almennilega og það vantar algerlega enn.
Mælifell
Á Sauðárkróki er annar veitingasalur, á hótelinu Mælifelli. Þar er verð örlítið hærra en í Dalakofanum, fiskur með súpu og kaffi á 1.100 krónur og grísasteik með súpu og kaffi á 1.550 krónur.
Hins vegar er Mælifell alvöru matstaður og engin ferðamannagildra. Þar er notalegt umhverfi, fagleg þjónusta og matreiðsla í góðum flokki. Allt er þetta á samkeppnishæfu verði, ef miðað er við Reykjavík.
Þetta er sex herbergja hótel við aðalgötu Sauðárkróks, skammt frá Dalakofanum. Í matsalnum er dimmur viður í hólf og gólf, bæði í veggjum og lofti, svo og í þungum viðarhúsgögnum. Á borðum eru diskamottur og þykkar pappírsþurrkur.
Súpur dagsins reyndust ágætar, í eitt skipti borin fram með heitu hvítlauksbrauði, afar góðu. Þá er ís hússins fremur góður, skreyttur á fagmannlega vísu. Kaffi er gott, ekki úr dunkum.
Pönnusteiktur silungur var fremur lítið eldaður og þess vegna nokkuð góður. Grísakótilettur voru hæfilega lítið eldaðar, næstum bleikar, mjög góðar. Með þeim var borinn fram ferskur maís í klemmu. Ég hef ekki oft fengið mikið betur eldað grísakjöt hér á landi.
Á Mælifelli er einnig sérréttaseðill með dýrari réttum. Þá er þar vínlisti, þar sem nota má hvítvínin Riesling Hugel og Hochheimer Daubhaus og rauðvínin Château Barthez de Luze og Santa Cristina.
Mér finnst ekki óeðlileg krafa, að matstaðir við hringveginn séu á svipuðu stigi verðs og gæða og Staðarskáli og að hinir vandaðri staðir í nágrenni hans séu á svipuðu stigi verðs og gæða og Hótel Mælifell.
Jónas Kristjánsson
DV