Hroki án dómgreindar

Greinar

Þegar Finnur Ingólfsson ráðherra framlengdi síðast leyfi Björns Friðfinnssonar frá störfum ráðuneytisstjóra til starfs hjá Fríverzlunarsamtökunum fyrir rúmu ári, var leyfið til eins árs og háð því skilyrði, að Björn kæmi til síns gamla starfs í ráðuneytinu nú um áramótin.

Það kom því öllum á óvart, að ráðherrann vildi fyrir síðustu jól ekki fá ráðuneytisstjórann aftur til starfa og hugðist koma honum fyrir annars staðar í kerfinu. Samkomulag náðist samt daginn fyrir gamlársdag um, að ráðuneytisstjórinn fengi starf sitt síðar á árinu.

Samkomulagið er staðfest af forsætis- og utanríkisráðherra, af því að undirskrift Finns var ekki talin marktæk. Niðurstaðan felst í, að ráðuneytisstjórinn gegni að sinni hlutverki sérstaks ráðgjafa ríkisstjórnarinnar, en fái starf sitt aftur í síðasta lagi fyrir næstu áramót.

Mál þetta olli ríkisstjórninni vandræðum og álitshnekki. Ungur ráðherra hafði blindazt svo af upphefð sinni, að hann taldi sig vera yfir siðareglur hafinn og bjóst við að komast upp með það. Hroki og dómgreindarskortur leiddu ráðherrann til fingurbrots.

Málið varð ríkisstjórninni óþægilegra fyrir þá sök, að ráðherrann gerði undirskriftir sínar verðlausar á einu bretti. Það varð til þess, að leiðtogar ríkisstjórnarinnar urðu að taka þátt í að hreinsa upp eftir hann og ábyrgjast undirritun hans á samkomulaginu um áramótin.

Lausnin felst eins og venjulega í, að ráðherra ber enga ábyrgð á misgerðum sínum, heldur verður reikningurinn sendur skattgreiðendum. Búin er til staða, sem ekki er á fjárlögum, til að gera ráðherranum kleift að tefja innkomu ráðuneytisstjórans í nokkra mánuði eða heilt ár.

Ráðherrarnir, sem komu að málinu, tóku sér fjárveitingavald, er á að vera í höndum Alþingis, til að bjarga andliti ráðherrans. Ekki verður þó séð, að það bjargi andliti hans eða félaga hans að framlengja dómgreindarskerta og hrokafulla ráðstöfun til bráðabirgða.

Ráðherrann hefði hins vegar getað bjargað andlitinu strax með því að segjast hafa gleymt fyrra bréfi sínu og taka ráðuneytisstjórann inn um þessi áramót. Frestun heimkomunnar í ráðuneytið felur ekki í sér neina andlitsbjörgun, heldur er hún almennt höfð í flimtingum.

Fram að máli Finns hafði ríkisstjórnin sloppið að mestu við þá umræðu um spillingu og hroka, sem tengzt hafði næstu ríkisstjórnum á undan henni. Líklegt er, að hún láti málið sér að kenningu verða og haldi sig að mestu frá vandræðum á þessum afmörkuðu sviðum.

Sterk bein þarf til að þola ráðherradóm í okkar þjóðfélagi, sem byggist óeðlilega mikið á reglugerðum og tilskipunum ráðherra og óeðlilega lítið á settum leikreglum þingræðisins. Of miklu valdi er safnað í hendur ráðherra, sem reynast misvitrir eins og annað fólk.

Fjölþjóðleg reynsla er fyrir því, að hefðbundið lýðræði er heppilegra rekstrarform þjóðfélags en ráðherralýðræðið, sem komið hefur verið upp hér á landi. Tímabili menntaðra einvalda er fyrir löngu lokið í veraldarsögunni, enda reyndist það stjórnkerfi illa til lengdar.

Setja þarf auknar skorður við rassaköstum ráðherra og takmarka útgáfu þeirra á tilkynningum af ýmsu tagi, einkum þeirra, sem valda útgjöldum af hálfu ríkisins. Ennfremur þarf að endurvekja þá gömlu hefð, að ráðherrar verði að standa við undirskriftir sínar.

Mál Finns minnir á, að lýðræði á Íslandi hefur ekki að öllu leyti þróazt eftir farsælum brautum nágrannaþjóðanna og að endurskoða þarf sérstöðu okkar.

Jónas Kristjánsson

DV