Hrossakaup um gæluverk

Greinar

Enn einu sinni hefur mest sátt náðst á Alþingi um það, sem vitlausast er. Með hrossakaupum samgöngunefndar Alþingis undir forustu samgönguráðherra hefur verið ákveðið að auka vegaframkvæmdir úr rúmlega 52 milljörðum í rúmlega 61 milljarð á næstu fimm árum.

Níu milljarða aukning vegaframkvæmda er dæmigerð kreppuráðstöfun, sem áður var gripið til, þegar atvinnuleysi gerði vart við sig. Þá skar Alþingi niður vegafé í fjárlögum fyrir jól og jók það síðan aftur að vori, þegar Dagsbrún og verktakar heimtuðu fleiri atvinnutækifæri.

Vegaframkvæmdir voru líka ráð Adolfs Hitlers til að koma Þýzkalandi út úr atvinnuleysi kreppunnar miklu við upphaf fjórða áratugar tuttugustu aldar. Þær aðstæður eru hins vegar ekki hér á landi árið 2000, þegar atvinnulífið keyrir á fullum dampi og vinna er næg.

Allir hagfræðingar, sem DV hefur talað við í fréttum undanfarinna daga, eru sammála um, að auknar vegaframkvæmdir séu olía á eld þenslunnar. Þjóðhagsstjóri orðaði það svo: “Það er alveg ljóst, að auknar framkvæmdir af þessu tagi stuðla að aukinni þenslu.”

Við erum um það bil að ofkeyra góðærið yfir í þenslu, sem lýsir sér í miklum viðskiptahalla gagnvart útlöndum og aukinni verðbólgu, sem er orðin tvöföld verðbólga viðskiptalanda okkar. Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun hafa varað við þessu, en ríkisstjórnin hlustar ekki.

Þungavigtarmenn ríkisstjórnarinnar eru allir lögfræðingar úr ríkisgeiranum, en hvorki hagfræðingar né athafnamenn úr einkageiranum. Þeir taka efnahagsmál hóflega alvarlega og enn síður kjördæmapotarar Alþingis, sem keppast bara um að ræna og rupla ríkissjóð.

Formaður samgöngunefndar Alþingis hefur skyndilega fengið mikinn áhuga á vegi milli Þorlákshafnar og Grindavíkur, af því að báðir staðir verða í kjördæmi hans við næstu kosningar. Samgönguráðherra hefur sjálfur áhuga á brú yfir Kolgrafarfjörð, sem er í hans kjördæmi.

Gæluverk af þessu tagi geta orðið góð í framtíðinni, en eru engan veginn nærtæk á þenslutíma. Þau eru þættir í hrossakaupum stjórnmálamanna úr öllum kjördæmum landsins. Þau eru hrossakaup, sem varða ekkert hagsmuni þjóðarinnar og ganga sumpart gegn þeim.

Hinar fyrirhuguðu framkvæmdir eru misjafnar, sumar arðbærar og aðrar arðlausar. Breikkun Reykjanesbrautar borgar sig þjóðhagslega á þrettán mánuðum, Austfjarðagöngin á meira en hundrað árum, en Siglufjarðargöngin munu aldrei borga sig þjóðhagslega.

Til samanburðar má nefna Sundabraut, sem ekki er í pakkanum, en mundi borga sig þjóðhagslega á hálfu þriðja ári. Í öllum þessum tölum er miðað við 1000 króna veggjald og 2% vexti. Valið á verkefnum er þannig greinilega ekki í neinu samhengi við arðsemi.

Af reynslu fyrri ára er ekkert, sem bendir til, að þjóðhagslegt tjón þensluframkvæmda á borð fyrir fyrirhugaða vegagerð verði vegið upp með eflingu byggða víða um land. Fólki hefur síður en svo fækkað minna á stöðum, sem hafa fengið boruð göt í fjöll til samgöngubóta.

Enn alvarlegri er reynsla nágranna okkar í Færeyjum, sem urðu gjaldþrota vegna illrar meðferðar fjár, meðal annars borunar gata í fjöll. Þetta hefur kostað svo mikið, að þeir hafa núna ekki ráð á að gerast sjálfstæð þjóð. Við vorum heppin að hafa ekki Sturlu fyrr á öldinni.

Endurtekin hrossakaup um arðlítil og arðlaus gæluverkefni minna okkur hvað eftir annað á, að því meira, sem tímarnir breytast, því meira eru þeir eins.

Jónas Kristjánsson

DV