Hrunadansinn stiginn

Greinar

Flest bendir til, að íslenzka krónan hafi ekki fundið botninn, þótt hún hafi fallið í ár um meira en fimmtung gagnvart gjaldmiðlum helztu viðskiptalandanna og um meira en fjórðung gagnvart dollar. Fall gjaldmiðilsins hefur raunar orðið hraðara í vetur en það var í sumar.
Verðbólga er fjórum sinnum meiri hér á landi en í viðskiptalöndum okkar. Undanfarið ár hefur hún verið rúmlega tveir af hundraði á Evrópska efnahagssvæðinu, en rúmlega átta af hundraði hér á landi. Gengisfallið og verðbólgan segir okkur, að við höfum misst tökin.
Efnahags- og framfarastofnun Evrópu segir í nýrri skýrslu um Ísland, að þessi vandræði séu heimatilbúin. Hún bendir á, að viðskiptahalli Íslands hafi verið tíu af hundraði í fyrra og átta af hundraði í ár. Í varfærnum orðum lýsir stofnunin ríki, sem stígur hrunadans.
Ríkisstjórnin og Seðlabankinn eiga þátt í vandanum. Seðlabankinn hélt of lengi uppi röngu fastgengi krónunnar fram á vorið og eyddi síðan gjaldeyri í misheppnaðar tilraunir í haust til að halda genginu uppi, þegar það hafði verið gefið frjálst og raunveruleikinn komið í ljós.
Engin fjármálastjórn er hjá ríkisstjórninni og hefur lengi engin verið. Fjármálaráðuneytið hefur að vísu takmörkuð tæki til að hamla gegn hrunadansi þjóðfélagsins, en hefur ekki notað nein þeirra. Í stórum dráttum má segja, að ráðuneytið sé einhvers staðar í felum.
Þjóðin hefur hvorki getað notfært sér hátt og stöðugt verðlag á sjávarafurðum í viðskiptalöndum okkar né hríðlækkandi verð á olíu og bensíni á heimsmarkaði til að færa sig nær því marki að lifa ekki um efni fram. Við erum í vandræðum, þótt ytri skilyrði séu hagstæð.
Almenn niðurstaða ferils fjármála á síðustu mánuðum er almenn svartsýni á framhaldið, almennt vantraust á gengi krónunnar og almennt vantraust á verði innanlands. Menn eru aftur farnir að spá í verðbólguna eins og fyrir einum mannsaldri. Braskið blómstrar að nýju.
Engin merki eru um, að landsfeður eða þjóð átti sig á stöðunni og ætli að læra af reynslunni. Við rekum enn þjóðfélag við litla framleiðni, þar sem stórfyrirtæki leysa vandræði sín með samkomulagi um hátt verðlag í stað þess að hafa fyrir því að hagræða í rekstrinum.
Efnahagsleg áhugamál landsfeðranna snúast einkum um fyrsta og annars stigs frumframleiðslu á borð við landbúnað, sjávarútveg og stóriðju. Slíkar greinar soga til sín fjármagn og munu gera það með vaxandi þunga, þegar farið verður að reyna að fjármagna Reyðarál innanlands.
Ríkisstjórnin er gersamlega ófáanleg til að ræða grundvallaratriði í efnahags- og fjármálum á borð við aðild að Evrópusambandinu og notkun erlendra gjaldmiðla á borð við evruna í viðskiptum innanlands. Með háum tollum hamlar hún líka gegn innflutningi ódýrra matvæla.
Við viljum vera svo rosalega sjálfstæð þjóð, að við þurfum séríslenzka verðbólgu, sem er margföld verðbólga annarra, að við þurfum séríslenzkar gengislækkanir, sem eru margfaldar lækkanir annarra, að við þurfum séríslenzkan viðskiptahalla, sem er margfaldur halli annarra.
Verst er, að ríkisstjórnin nýtur stuðnings þjóðarinnar við að stinga höfðinu í sandinn. Þjóðin vill ekki horfast í augu við raunveruleikann. Hún vill eyða um efni fram. Hún vill halda áfram að stíga hrunadansinn, af því að hún ímyndar sér, að kirkjan muni aldrei sökkva.
Hirðirinn og sauðirnir eru sammála um, að aðalatriðið sé að ferðast á fyrsta farrými. Hitt skipti minna máli, hvert ferðinni er heitið, hvort það er norður og niður.
Jónas Kristjánsson

DV