Hryðjuverk í heimahögum

Punktar

Raðmorðingi hefur undanfarið leikið lausum hala í úthverfum höfuðborgar Bandaríkjanna og valdið almennri skelfingu. Ef svona erfitt er að hafa hendur í hári hryðjuverkamanns við bæjardyr Hvíta hússins, hversu miklu flóknara verkefni er að ná til hryðjuverkamanna sums staðar í fjarlægum útlöndum, þar sem þeir njóta skjóls hjá hluta almennings, spyr Martin Kettle í Guardian. Enda gengur Osama bin Laden enn laus og raunar allir helztu ráðamenn al Kaída samtakanna. Þetta segir okkur, að baráttan við alþjóðlega hryðjuverkamenn er flókið þolinmæðisverk. Einfaldara er fyrir George W. Bush forseta að skipta út umræðuefnum og reyna að beina óþolinmóðri athygli fólks að alls óskyldum vanda, Saddam Hussein, sem fyrir löngu hætti að styðja hryðjuverk í útlöndum.