Hryðjuverkafólk heimsótt

Greinar

Íslenzkum forsætisráðherra hefur ekki ennþá dottið í hug að fara í opinbera heimsókn til Serbíu, útþensluríkis, sem hefur tekið land af öðru ríki og hrakið íbúa þess brott. En Davíð Oddssyni forsætisráðherra dettur í hug að fara í opinbera heimsókn til Ísraels.

Eðlilegra er, að íslenzkur ráðherra fari í opinbera heimsókn til ríkja, er haga sér nokkurn veginn sæmilega í umgengni við umheiminn, svo sem til vestrænna ríkja. Stórfelldir viðskiptahagsmunir geta þó leitt til slíkra samskipta, svo sem við Sovétríkin sálugu.

Engum dettur í hug, að íslenzkur ráðherra fari til Serbíu eða til Íraks eða til Indónesíu eða til Burma, svo að nefnd séu nokkur þau ríki, þar sem ofbeldi er mikilvægur þáttur ríkisvaldsins. Opinberar heimsóknir nota stjórnvöld slíkra ríkja sér til réttlætingar.

Framferði Ísraelsstjórnar á hernumdum svæðum Palestínu brýtur í bága við alþjóðalög, sem segja, að ekki sé heimilt að reka íbúa af slíkum svæðum eða nema þar land. Hvort tveggja hefur Ísrael gert í ríkum mæli, meðal annars með fjárstuðningi frá Bandaríkjunum.

Landnám Ísraela í Palestínu er aðeins hluti af hinu gegndarlausa ofbeldi og hryðjuverkum, sem stjórnvöld, her og landnemar Ísraela standa fyrir gagnvart Palestínumönnum. Þetta hefur kostað hundruð Palestínumanna lífið og gert líf tugþúsunda óbærilegt.

Framkoma Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum minnir á SS og Gestapo. Ísraelar skjóta til bana unglinga, sem kasta grjóti. Ísraelar pynda Palestínumenn til dauða. Ísraelar láta jarðýtur eyða heimilum fólks og ávaxtagörðum þess. Ísraelar ræna heimilum þess.

Þetta eru ekki bara hryðjuverk ríkisvalds, heldur þjóðfélagsins. Ísraelar líta margir hverjir á sig sem herraþjóð að hætti Hitlers og líta á Palestínumenn sem eins konar húsdýr eða hunda. Þessi rotnun þjóðfélags Ísraela hefur gerzt mjög hratt á síðasta áratug.

Stundum er ofbeldi Ísraelsmanna afsakað eða útskýrt í burtu með tilvísun til þess, að fyrri kynslóð þeirra hafi sætt ofbeldi fyrir hálfri öld, nákvæmlega eins og reynt er að afsaka eða útskýra í burtu ofbeldi Serba með tilvísun til hálfrar aldar gamals ofbeldis.

Þessi flótti úr nútímanum yfir í sagnfræðina er ekki góður leiðarvísir um, hvernig eigi að standa að umgengni milli þjóða árið 1992. Um samband þjóða gilda alþjóðleg lög og viðurkenndar siðareglur að vestrænum hætti, en Ísrealar þverbrjóta þetta í vaxandi mæli.

Opinberar heimsóknir hafa tilhneigingu til að festa stjórnendur ofbeldisríkja í þeirri trú, að þeir séu á réttri leið og að umheimurinn muni láta ofbeldi þeirra kyrrt liggja. Þess vegna er heimsókn Davíðs Oddssonar til Ísraels afar skaðleg og til vansæmdar Íslendingum.

Um langt skeið hafa íslenzkir ráðherrar forðazt að setja slíkan gæðastimpil á hryðjuverkastjórn Yitzhak Shamirs í Ísrael. Þorsteinn Pálsson villtist þangað í opinbera heimsókn fyrir tveimur árum, þegar hann hafði lítið að gera í stjórnarandstöðunni hér heima.

Vont er að oddamaður stjórnarandstöðu fari í opinbera heimsókn til Ísraels. En mun verra er, að forsætisráðherra skuli gera það. Og afleitt er, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ganga fram fyrir í skjöldu í slíkum stuðningi við helztu hryðjuverkamenn Miðausturlanda.

Brýnt er, að ekkert tækifæri verði látið ónotað til að sýna hryðjuverkamönnum fram á, að verk leiði til þess, að heiðarlegt fólk forðist umgengni og samneyti við þá.

Jónas Kristjánsson

DV