Hryðjuverkaríkið Ísrael er orðið alvarlegt vandamál og á eftir að versna. Telja má fullvíst, að það búi nú yfir kjarnorkuvopnum, sem það mun nota til að reyna að hræða nágranna sína til hlýðni. Ógnanir eru nefnilega eina umgengnisvenjan, sem Ísraelsríki kann.
Þótt minna hafi frétzt af ógnarstjórn Ísraela á herteknum svæðum, af því að fjölmiðlar hafa ekki staðið sig sem skyldi gegn aðgerðum þarlendra stjórnvalda til að skrúfa fyrir fréttaflutning, hefur ástandið síður en svo batnað. Villimennskan hefur þvert á móti aukizt.
Helzt er hægt að líkja ógnarstjórninni við aðgerðir þýzkra SS-manna á hernumdum svæðum í síðari heimsstyrjöldinni. Með skipulögðum hrottaskap er reynt að kúga almenning til uppgjafar, sem ekki tekst, af því að hryðjuverkaríkið neitar að skilja þjóðfrelsishugsun.
Þetta er sorgarganga, sem hófst, þegar gamlir hryðjuverkamenn á borð við Menachem Begin, Yitzhak Shamir og Ariel Sharon komust til ísraelskra valda í stað siðmenningarfólks á borð við David Ben Gurion, Goldu Meir og Abba Eban. Og sorgargangan er fetuð án afláts.
Siðferðilega er Ísrael hrunið ríki. Það er orðið æxli heimshlutans. Vestræn hugmyndafræði á þar ekki lengur bandamann, heldur ólánsmann, sem kemur óorði á Vesturlönd, því að þar um slóðir er Ísrael álitið vera eins konar skjólstæðingur hins vestræna heims.
Æxlið stafar frá Bandaríkjunum, sem hafa stutt Ísrael í blíðu og stríðu. Herkostnaður hryðjuverkaríkisins er greiddur af bandarískum peningum. Þar vestra má stjórnmálamaður vart opna munninn gegn Ísrael án þess að sæta skipulegum andróðri í næstu kosningum.
Aipac heitir áróðurs-, ímynda- og þrýstistofnunin, sem gætir hagsmuna Ísraels í Bandaríkjunum. Hún virðist hafa heljartök á þarlendum stjórnmálamönnum og mikil áhrif á fjölmiðlun. Aðrar stofnanir af slíku tagi eru sem smáfuglar í samanburði við Aipac.
Engar horfur eru á, að tengsl Bandaríkjanna og Ísraels muni minnka við forsetaskipti vestra. Forsetaefni repúblikana heldur fram óbreyttri stefnu og forsetaefni demókrata hefur gengið úr vegi til að leggja áherzlu á aukinn og óbrigðulan stuðning sinn við Ísraelsríki.
Ísrael mun áfram nota sér bandarísku aðstöðuna til að fara sínu fram og hita undir suðukatli Miðausturlanda. Það mun hafa þau hliðaráhrif að fæla arabíska heiminn enn frekar frá hinum vestræna en þegar er orðið og gera hann róttækari í trú og stjórnmálum.
Í baráttunni um áhrif á hnetti okkar kæmi sér vel fyrir Vesturlönd að ná sómasamlegum tökum á sambúð við arabíska heiminn, svo að þau séu ekki að eyða kröftum í margar vígstöðvar. Vestræn menning og arabísk þyrftu að geta ræktað betur snertifleti sína.
Íslendingar hafa sérstaka ástæðu til að harma ummyndun Ísraels í hryðjuverkaríki, því að löngum var sérstaklega gott samband milli ríkjanna, þegar hinir siðmenntuðu voru enn við völd í Ísrael. En við getum lítið gert, því að Ísraelsmenn vilja ekki hlusta á ráð.
Öðru máli gegnir um Bandaríkin. Þar verða fjölmiðlar og stjórnmálamenn að brjótast undan skoðanakúgun Aipac og fara að átta sig á, hversu grátt Ísraelsríki leikur ímynd og aðstöðu Bandaríkjanna, svo og Vesturlanda allra, í löndum Suðvestur-Asíu og Norður-Afríku.
Ísrael nútímans er lítið, en frekt kjarnorkuríki hryðjuverkamanna, sem eiga eftir að valda okkur miklum og vaxandi vandræðum á næstu árum og áratugum.
Jónas Kristjánsson
DV