Landnám Ísraelsmanna á hernumdum svæðum í Palestínu er einn af þremur helztu drifkröftum vandræðanna á svæðinu. Landi er rænt af heimamönnum og herskáum landnemum komið fyrir á víggirtum búgörðum. Alþjóðareglur um hernám banna slíkt þjóðernisofbeldi.
Þegar friðarferlið hófst fyrir nokkrum árum, hefði átt að stöðva þetta landnám, sem er fleinn í sál heimamanna. Landtakan hélt þó áfram, hvar í flokkum sem ríkisstjórnir Ísraels stóðu. Þetta óeðlilega ástand hefur grafið undan trausti heimamanna á friðarferlinu.
Þjóðernislega ofbeldið, sem felst í landnámi Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum, hefur grafið undan trausti Palestínumanna á heimastjórn Arafats. Í vaxandi mæli er litið á hann sem peð í harmleik friðarferlis og jafnvel sem gísl þess. Menn heimta meiri róttækni.
Málsaðilar eiga báðir sök á ofbeldinu á hernumdu svæðunum, sem er önnur höfuðorsök þess, að friðarferlið hefur farið út um þúfur og kemst ekki í gang á nýjan leik. Ef talið er í mannslífum, eiga Ísraelsmenn margfalt meiri sök en Palestínumenn, sennilega sjöfalt meiri sök.
Ofbeldi Ísraelsríkis gagnvart Palestínumönnum hefur aukizt, síðan heimskunnur hryðjuverkamaður varð forsætisráðherra Ísraels. En það jókst líka meðan kratarnir fóru með völd í landinu. Ofbeldishneigð er snar þáttur í þjóðfélaginu, hver sem er við völd hverju sinni.
Þriðja höfuðorsök vandræðanna á svæðinu er eindreginn og óbifanlegur stuðningur Bandaríkjanna við málstað Ísraels. Þessi stuðningur við útlent hryllingsríki gegnsýrir allt þjóðfélagið í Bandaríkjunum, rétt eins og ofbeldishneigðin gegnsýrir allt þjóðfélagið í Ísrael.
Bandaríkin beita neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í þágu Ísraels eingöngu og einangra sig þar með á alþjóðavettvangi. Bandaríkin halda Ísrael uppi með peningum og hergögnum. Þau hafa ræktað það skrímsli, sem Ísrael er orðið í samfélagi ríkjanna.
Menn eiga erfitt með að ná kosningu til pólitískra starfa í Bandaríkjunum nema þeir lýsi yfir stuðningi við Ísrael. Meira hefur borið á þessu í röðum demókrata og var Bill Clinton versti forseti Bandaríkjanna að þessu leyti. Því miður virðist George Bush ætla að feta sömu leið.
Landnámið, ofbeldið og bandaríska skjólið eru samanlagt þrjár grundvallarforsendur þess, að friðarferlið gengur ekki upp. Ef Bandaríkjastjórn kærði sig um að stöðva landnámið, gæti hún fengið því framgengt með því að kippa að sér hendinni í stuðningi við Ísrael.
Fáránlegt er að halda fram, að lausn málsins felist í, að Palestínumenn felli niður sinn sjöunda hluta ofbeldisins. Afturköllun andófs þeirra getur aldrei orðið fyrsta skrefið til að endurvekja friðarferlið, en gæti hins vegar orðið eitt af skrefunum, sem kæmu í kjölfarið.
Því miður hefur landnám og ofbeldi Ísraels grafið svo undan heimastjórn Palestínumanna, að hún hefur ekki lengur tök á tilfinningum heimamanna. Hún getur ekki lengur skrúfað frá andófi og skrúfað fyrir það aftur. Andófið hefur öðlazt sjálfstætt og skipulagslaust líf.
Hér eftir verður að taka tillit til þessarar breyttu stöðu. Bandaríkin og Ísrael verða fyrst að stíga nokkur skref til sátta, áður en hægt er að fara að reikna með, að traust Palestínumanna á nýju friðarferli hafi aukizt svo mikið, að þeir geti látið af réttmætu andófi sínu.
Meðan Bandaríkjamenn fást ekki til að skilja þetta, verður engin lausn fundin á deilu, sem hefur hörmuleg áhrif á stöðu og álit Vesturlanda í þriðja heiminum.
Jónas Kristjánsson
DV