Fjármálaráðherra hefur kynnt fremur óljósar hugmyndir um lánamál, sem hann hyggst bera undir ríkisstjórnina í dag. Samkvæmt þeim á að afnema vísitölubindingu skammtímalána og skylda hankana til að skuldbreyta þeim til lengri tíma en þriggja ára.
Samkvæmt orðanna hljóðan þýðir þetta á íslenzku, að skammtímalánin verði að langtímalánum og vísitalan verði einnig afnumin af hinum nýju langtímalánum, sem áður voru skammtímalán. Hugsanlegt er þó, að fjármálaráðherra hafi ekki hugsað málið svo langt.
Bankastjórar segja hugmyndir fjármálaráðherra vera illa skiljanlegur. Þeir benda á, að afnám vísitölubindingar innlána hljóti að fylgja afnámi hennar af útlánum, ef ekki eigi allt að fara í graut. Samræmi verði að vera milli kjara á innlánum og útlánum.
Þar á ofan telja bankastjórar, að ríkisstjórnin geti ekki skipað bönkunum að gera þetta. Hún geti bara farið fram á það. En ef til vill hyggst fjármálaráðherra fá Alþingi til að setja lög um þetta. Það er ekki ljóst, frekar en annað í máli þessu.
Á sama tíma og fjármálaráðherra varpar fram hugmyndum um útsölu á sparifá er ríkisstjórnin búin að láta semja Seðlabankafrumvarp, sem felur í sér, að bankar megi sjálfir ákveða vexti. Ekki er ljóst, hvernig hugmyndir fjármálaráðherra falla í þann ramma.
Ríkisstjórnin verður að átta sig á, að ekki má samþykkja neinar hugmyndir, sem fela í sér flótta sparifjár úr innlánsstofnunum. Hún hefur ekki margar rósir í hnappagatinu aðrar en þá, að sparifá hefur aukizt á valdaskeiði hennar. Þeirri rós má hún ekki týna.
Fjármálaráðherra vill vera góður við húsbyggjendur, sem eru að sligast af skammtímalánum í bönkum. Það er afar fallega hugsað. En þessir sömu húsbyggjendur hafa bent á, að óverðtryggð lán séu þyngri en verðtryggð í upphafi endurgreiðslutímans.
Hugsanlega er fjármálaráðherra hér hafður fyrir rangri sök. Hugmyndir hans kunna að vera betri en hér hefur verið lýst. Ef til vill á hann bara erfitt með að tjá sig um þær. Vonandi kemur það í ljós sem allra fyrst. Hringlandi í fjármálum er afar óheppilegur.
Fjármálaráðherra hefur aflað sér mikilla vinsælda hjá forustumönnum vinnumarkaðarins með því að falla frá áformum um lækkun tolla og tekjuskatts og hækkun vörugjalds. Fráhvarfið felur nefnilega í sér, að hin margfræga vísitala hækkar ekki um 1-1,5 af hundraði.
Forustumenn launþegasamtaka hafa ekki umtalsverðar áhyggjur af því, hvort tilfærslur milli tegunda opinberra gjalda breyti lífskjörum umbjóðenda sinna. Þeir hafa hins vegur feiknarlegur áhyggjur af því, hvaða áhrif slíkar tilfærslur hafa á vísitölur.
Við erum enn einu sinni komin í þá stöðu, að helztu úrræði valdhafanna felast í að velja leiðir, sem spara vísitöluhækkanir sem mest. Það eru reikningskúnstir af því tagi, sem hafa verið þjóðinni dýrastur á liðnum árum. Vísitalan hefur komið í stað raunveruleikans.
Tilfærslur milli tegunda opinberra gjalda og lánskjaraæfingar mega ekki leiða til þess, að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin haldi, að slíkt geti komið í staðinn fyrir raunhæfar aðgerðir – lækkun opinberra útgjalda.
Ríkið hefur um langt skeið kynt undir verðbólgunni með óráðsíu í eigin fjármálum. Kominn er tími til, að fjármálaráðherra fái góðar hugmyndir á því sviði.
Jónas Kristjánsson
DV