Þau lönd, sem nú heita Víetnam, Laos og Kampútsea, voru einu sinni kölluð franska lndókína. Sá heimshluti hefur sýnt í hnotskurn þrjár samfelldar kynslóðir heimsvaldastefnu, samfara miklu og vaxandi blóðbaði.
Fyrst reyndu Frakkar árangurslaust að hindra hrun hins hefðbundna, evrópska nýlenduveldis. Síðan komu Bandaríkjamenn til skjalanna með nýlendustefnu eftirstríðsáranna, undir merkjum hins alþjóðlega löggæzlumanns.
Þegar hin bandaríska útgáfa heimsvaldastefnunnar hrundi í lndókína, kom í ljós hin þriðja og nýjasta, sú eina, sem skiptir máli í heiminum um þessar mundir. Það er rússneska heimsvaldastefnan að baki stórvíetnamsks leppríkis.
Þessi heimsvaldastefna er mismunandi opinská. Sums staðar í heiminum fólst hún í beinni hernaðaríhlutun, svo sem um þessar mundir í Afganistan. Víðar eru þó hafðir leppar á oddinum, svo sem Kastró og Kúbustjórn.
Rússland kostaði hernað Kúbumanna í Angóla og Eþiópíu, alveg eins og það kostar núna tilraunir Víetnama til að gleypa Laos og Kampútseu og koma á fót stór-víetnömsku ríki á öllu landi hins gamla, franska Indókína.
Valdaskákin í lndókína er hefðbundin. Menn gera bandalag við þá, sem eru hinum megin við nágrannann til að dreifa kröftum hans á fleiri landamæri. Líklega er þetta elzta aðferðin í stappi milli ríkja.
Rússland kom sér upp leppríki í Vietnam til að þrengja að nágranna sínum og andstæðingi, Kína, úr hinni áttinni, úr suðri. Kína svaraði með því að koma sér upp leppríki að baki Víetnams, hinni illræmdu Kampútseu.
Með þessu binda Rússar nokkurn hluta hernaðarmáttar Kína á suðurlandamærunum og Kínverjar binda nokkurn hluta hernaðarmáttar Víetnams á suðvesturlandamærum þess og í Kampútseu. Þetta er hreint skólabókardæmi.
Heimsvaldastefna Rússlands er ekki ný af nálinni. Hún er eðlilegt framhald af stefnu keisaradæmisins. Sovétríkin og leppríki þeirra eru eins konar Stór-Rússland undir hugmyndafræðilegri skikkju stalínismans.
Hin hugmyndafræðilega skikkja er alltaf að verða mikilvægari þáttur heimsvaldastefnu. Eiginhagsmunirnir voru opinskárri í tíð gömlu, evrópsku nýlenduveldanna, þótt óljóst væri talað um nauðsyn siðmenntunar villimanna.
Bandaríska heimsvaldastefnan var nýtízkulegri, klædd í fögur klæði frelsis og mannhelgi. Bandaríkin voru hinn hvítklæddi riddari, sem varði þjóðir heims gegn hinum eldspúandi dreka stalínismans.
Heimsvaldastefna stalínistanna í Kína og Rússlandi hvílir á enn mótaðri hugmyndafræðilegum grunni. Hugsjónin er svo sterk, að heilum stéttum manna hefur verið útrýmt í Kampútseu. Sagt er, að rífa þurfi niður til að byggja upp nýtt.
Vaxandi hugmyndafræði í heimsvaldastefnu hefur gert hana mun grimmari en áður. Fjöldamorð og þjóðarmorð eru framin með köldu blóði í þágu hinnar miklu hugsjónar, þúsund ára ríkis stalínismans.
Engum nema sannfærðum hugsjónamönnum getur dottið í hug að útrýma heilum stéttum manna í landi sínu. Engum nema slíkum getur dottið í hug að leggja óyfirstíganlega steina í götu alþjóðlegs hjálparstarfs.
Íbúar lndókína hafa nú á nokkrum áratugum mátt þola þrjár kynslóðir heimsvaldastefnu, hverja þeirra magnaðri hinum fyrri. Örlög þessa fólks eru hörmulegri en orð fá lýst.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið