Í þessu tölublaði Eiðfaxa mæla nokkrir þekktir hestamenn, sem þekkja vel til kostnaðar við ræktun, einum rómi um, að ræktun sé ekki atvinnuvegur, sem skili arði, heldur lífsstíll eða hugsjón, sem skili ánægju. Þeir telja, að ekkert sé fjárhagslega upp úr ræktun sem slíkri að hafa. Tekjur ræktenda komi úr öðrum þáttum hestamennskunnar eða jafnvel frá allt öðrum atvinnugreinum.
Samt fjölgar ræktendum stöðugt. Lélegar afkomuhorfur virðast ekki fæla fólk frá ræktun sér til ánægju og upplyftingar. Raunar einkennist íslenzk hrossarækt í auknum mæli af þátttöku aðila, sem hafa engar sérstakar væntingar um fjárhagslega afkomu og búast sumir hverjir ekki einu sinni við, að neinn hluti fjárfestingarinnar skili sér til baka.
Þetta er óneitanlega sérkennileg staða. Heill atvinnuvegur tamningamanna, þjálfara, sýningarmanna, kennara, kaupmanna, flutningamanna, útflytjenda, járningamanna, dýralækna og ýmissa annarra hér á landi og í fjölmörgum öðrum löndum lifir, að vísu misjafnlega góðu lífi, á því að í bakgrunninum sé til fólk, sem er reiðubúið að gefa vinnuna sína, svo að íslenzk hross séu ræktuð.
Þetta er bæði kostur og galli. Markaðshagfræðin segir, að ótraustur sé atvinnuvegur, sem hvílir á arðlausum grunni. Reynslan sýnir samt, að þessi atvinnuvegur blómstrar í trássi við fræðibækurnar. Markaðshagfræðin segir, að áhugamenn hljóti að skaða atvinnumenn með því að halda niðri verðgildi ræktunar. Reynslan sýnir samt, að fremur eru það óskipulagðir fjöldaframleiðendur í hefðbundnum stíl, sem halda niðri verðinu.
Um allt þetta má lesa hér í Eiðfaxa. Veltið því fyrir ykkur og sendið okkur línu.
Jónas Kristjánsson
Ræktun
skilar
ekki arði
Niðurstaða rekstrargreiningar Hestamiðstöðvarinnar á afkomu bænda í hrossarækt sýnir, að þeir hafa ekkert upp úr ræktuninni sjálfri, en lifa af ýmsu öðru, sem sumt tengist hrossarækt, en annað ekki. Samkvæmt viðtölum Eiðfaxa við hrossabændur er ræktunin ekki raunveruleg búgrein í hefðbundnum skilningi, heldur eins konar lífsstíll eða hugsjón. Hún skilar ekki arði, heldur ánægju.
Er ekki
búgrein
Bjarni Þorkelsson á Þóroddsstöðum:
Ég hef aldrei getað leyft mér að líta á hrossarækt sem búgrein. Þetta hefur alltaf verið tómstundagaman eða hugsjón meðfram fullri vinnu á öðru sviði. Ég hef mátt þakka fyrir, ef búskapurinn hefur lufsast til að reka sig. Það hefur gerzt sum árin, en önnur ekki.
Búskapurinn byggist auðvitað á því, að fjölskyldan gerir nánast allt sjálf nema að þjálfa beztu hrossin fyrir sýningar og koma þeim á framfæri. Að því leyti er ég í afar farsælu samstarfi við einn flinkasta tamninga- og sýningamann landsins, heimsmeistarann Daníel Jónsson. Við temjum, þjálfum, járnum og seljum að mestu leyti sjálf. Þetta samstarf við Daníel er eflaust lykill að því, að á þessu ári og einkum í haust hefur þó gengið svo vel, að ég er að láta reyna á, hvort ég geti snúið mér að þessu eingöngu. Ég er til dæmis farinn að selja mönnum helming á móti mér í efnilegum mertrippum, sem eru svo áfram í vist hjá mér.
Í sjálfu sér hef ég ekki tekið út þátt ræktunarinnar í búskapnum. Það er hins vegar ljóst, að hún skilar sér óbeint, ef ræktunarbú öðlast orðspor og getur farið að selja jafnt og þétt. Við þær aðstæður má segja, að brugðið hafi til hins betra og ræktunin sé farin að rúlla yfir núllið.
Það skiptir líka miklu máli, að ræktendur láti ekki illar tungur segja sér fyrir verkum. Skynsamt fólk og fordómalaust sækist eftir því að halda undir stóðhestana mína. Slíku fólki fjölgar í röðum hrossaræktenda.
Hrossum fyrirgefst margt
Ingimar Ingimarsson á Hestamiðstöðinni:
Hestamiðstöðin og Hólaskóli hófu í ársbyrjun 2001 gæðaátak í hrossabúskap. Um tíu bændur í Skagafirði og Húnaþingi tóku þátt í verkefninu, sem hefur staðið síðan. Í átakinu voru teknir fyrir fimm meginþættir í hrossabúskap, kynbætur; fóðrun, uppeldi og heilbrigði; landnýting; tamning, þjálfun og sýningar; rekstur, markaðssetning og sala.
Haldin voru námskeið í þessum þáttum á Hólum árið 2001 og þátttakendur heimsóttir. Síðan hefur átakinu verið haldið við með heimsóknum og framhaldsfundum. Snemma í ferlinu var gerð rekstrargreining á hrossabúskap þátttakenda til að komast að raun um, hver væru raunveruleg útgjöld og hverjar væru raunverulegar tekjur hrossabænda.
Tekjur voru reiknaðar af hrossasölu og tengdum tekjum, svo sem tamningu, folatollum, hestaferðum, reiðkennslu og fleiru. Útgjaldaliðir blandaðra búa voru brotnir niður, svo að hægt væri að finna þátt hrossanna í fóðri, áburði og vélanotkun. Ennfremur var reiknaður ýmis kostnaður við dýralækna, járningar, skeifur og reiðver, folatolla og tamningagjöld. Einnig var reiknuð hlutdeild í rafmagni, fasteignagjöldum og tryggingum, í viðhaldi húsa og girðinga, síma og ýmsu öðru.
Markmiðið með þessari úttekt var að reyna að finna fá skýrari mynd af ástandinu í rekstri hrossabúa og finna módel fyrir hrossarækt, sem gæti nýtzt öðrum á sama sviði. Sjá mætti þætti, þar sem auka mætti gæði og hagkvæmni. Oft hafa menn ekki greint milli hrossaræktar og annarra búgreina og jafnvel ekki viljað horfast í augu við staðreyndir.
Í verkefninu settu þátttakendur sér markmið, svo sem að nýta ræktunarhóp sinn betur, einkum að fækka afætum og beina ræktuninni að nýtilegustu hrossunum. Allir fækkuðu hrossum sínum á tímabilinu eins og raunar margir fleiri hafa gert á sama tíma. Grisjun hrossa er meginþáttur í bættri afkomu hrossabúa. Menn verða að temja sér markvissari vinnubrögð og ekki sætta sig við fullt af óskilgreindum hrossum í ræktuninni.
Eitt helztu atriðanna, sem fram komu í rekstrargreiningunni, var að hrossum fyrirgefst margt umfram kindur og kýr. Einlembdar ær og illa mjólkandi kýr eru felldar, en tilfinningaleg tengst ráða aftur á móti miklu um viðhorfin til hesta. Oft er töluvert um reiðhesta til frístunda, sem skekkja afkomumyndina. Slíkir hestar eru oft í eigu ættingja, sem farnir eru að heiman.
Annað veigamikið atriði er óreglulegt tekjuflæði hrossabúskapar. Menn geta ekki gengið að reglubundnum sölum sem vísum eins og hægt er í mjólk og kjöti. Gjöldin falla hins vegar til jafnt og þétt og erfitt getur verið að stýra breytilegum kostnaði. Fóður vegur þar þungt á metunum. Allt gerir þetta hrossaræktun fjárhagslega erfiða.
Flestir hrossabændur eru annað hvort í öðrum búskap líka eða spara sér aðkeypta þjónustu við hrossabúskapinn með því að gera sem flest sjálfir, járna til dæmis og temja sjálfir. Raunar er það grundvallarforsenda í afkomu hrossabúskapar að vera sem mest sjálfbjarga og kaupa helzt ekki aðra þjónustu en sýningar og þjálfun fyrir þær.
Niðurstaða rekstrargreiningarinnar var, að almennt hafa hrossaræktendur ekkert upp úr ræktuninni sjálfri í beinhörðum peningum og sumir raunar minna en ekki neitt. Þeir höfðu tekjur sínar af öðrum búgreinum, af því að þjónusta sig sjálfir í stað þess að kaupa af öðrum, og af þjónustu fyrir aðra í ýmsum greinum hestamennskunnar.
Hins vegar má líta á það, að hrossaræktin er grundvöllur að öflun meiri tekna en ella af tamningum og öðru slíku og gerir mönnum kleift að skipuleggja slíka vinnu eftir álagstímum á öðrum sviðum, til dæmis misjöfnum önnum af sauðfjárbúskap. Einnig má líta á það, að hafi hrossabónda tekizt vel til og ræktunin gert garðinn frægan, stuðlar það að tekjum hans á hliðarsviðum og liðkar fyrir sölu hrossa.
Flóknasta búgreinin
Kristinn Guðnason í Árbæjarhjáleigu:
Liðinn er tími hrossabúa, þar sem hrossin eru aukageta á jaðri annarra búgreina. Algengast var á slíkum búum, að hrossin legðu ekkert til sameiginlegs kostnaðar og væru seld á lágu verði, oftast lítið gerð og stundum bara til að losna við þau. Menn höfðu litla tilfinningu fyrir kostnaðinum.
Einnig er liðin sú tíð, að kúabændur og sauðfjárbændur fari í hrossarækt til að bæta sér upp minni kvóta á hefðbundnum sviðum. Menn eru almennt farnir að átta sig á, að hrossarækt er allt annað fag og að mörgu leyti flóknara en aðrar búgreinar, þar sem fengizt er við afmarkaða hluti á borð við mjólkurmagn eða fallþunga.
Ekki er hægt að mæla með slíkri hrossarækt sem hliðarbúgrein nú á tímum. Hún er í mesta lagi dýrt frístundagaman góðbænda, sem hafa gaman af hestum, en reikna ekki með tekjum af þeim. Ekki má heldur gleyma, að lágt söluverð slíkra bænda á hrossum og þjónustu á borð við hagabeit heldur uppi röngum verðhugmyndum á þessu sviði. Hvað viltu borga, spyrja bændur, sem hafa hross sem jaðarbúgrein.
Hrossabændur geta haft sómasamlega afkomu, ef þeir reka blandaðan búrekstur með hross. Þeir mega þá helzt ekki hafa meira en 25-30% af tekjum sínum af ræktuninni. Hitt verður að koma frá margvíslegri hestatengdri þjónustu fyrir aðra, svo sem tamningum, járningum, hagabeit, ferðaþjónustu, milligöngu í sölu hrossa, svo og kennslu. Það telur allt í tekjunum.
Ég tel, að blandað hrossabú eigi ekki að hafa mörg ræktunarhross. 10-15 folöld á ári er alveg nóg. Leggja ber áherzlu á, að þetta séu góð hross, hátt yfir meðallagi. Ræktun annarra hrossa felur í sér hreint tap. Gæðin skipta meira máli en magnið og menn bæta sér upp sölusveiflur með tekjum af þjónustu.
Bændaskólinn á Hólum kemur til móts við þessar þarfir, einkum með verklegri kennslu við búskap á sumrin. Mikilvægt er, að nemendur í starfsþjálfun kynnist ýmsum hliðum hrossabúskapar, en lendi ekki á jörð, þar sem eitt sérsvið er stundað einhliða, til dæmis ræktun eða tamningar. Auka þarf þó kennslu, sem lýtur að ferðaþjónustu hrossabænda og markaðsmálum þeirra.
Mikilvægt er, að hrossabændur átti sig á, að þeir eru að stunda alvöru atvinnuveg, sem hefur allt sitt uppi á borði. Skattamál þurfa að vera í lagi, enda fjölgar þeim, sem þurfa að geta sýnt fram á, að þeir hafi tekjur til að standa undir skuldbindingum. Svartur rekstur hefur minnkað mjög á síðustu árum.
Á ferðum okkar Ágústs Sigurðssonar um landið, sáum við ungt fólk vera að gera góða hluti í öllum landshlutum. Aðalatriðið er, að fólk sé duglegt og útsjónarsamt, kunni að safna sér reynslu, hafi úti öll spjót í tekjuöflun, einkum í þjónustu fyrir aðra, og leggi meiri áherzlu á gæði en magn í ræktun.
Hugsjón
Bæring Sigurbjörnsson á Stóra-Hofi:
Ég fitna svo sem ekki af hrossarækt, en er þó hér enn á Stóra-Hofi og geri ráð fyrir að stunda áfram þessa grein. Raunar væri ég ekki í þessu, ef ég hefði ekki gaman af því. Þetta er meira hugsjón en atvinna, en stendur þó undir tekjum búsins. Arðurinn af ánni, sem kviknaði fyrir nokkrum árum, hefur farið í að byggja hesthús. Það er einu utanaðkomandi peningarnir, sem hafa farið í hrossin.
Þetta gengur hér af því að við hjónin eru saman í þessu af lífi og sál og erum í góðu samstarfi við Albert Jónsson, sem er með hrossin sín hér. Við erum með 30-40 hross inni í þjálfun um þessar mundir. Ég tem dálítið sjálfur, en járna ekki, svo að mikið af vinnu er aðkeypt.
Sala hrossa er orðin erfiðari en áður. Kaupendur eru ekki lengur í áskrift. Þeir gera meiri kröfur en áður, vilja meiri gæði og helzt, að hrossin séu fulltamin. Ræktendur eru orðnir mjög margir, en sumir standa stutt við, því að þeir ná ekki nógu góðum árangri. Frá mínu sjónarmiði er ræktun skemmtilegt og erfitt starf, sem stendur undir afkomu heimilisins.
Gerum allt sjálf
Skapti Steinbjörnsson á Hafsteinsstöðum:
Hrossabúskapurinn hér á Hafsteinsstöðum byggist á því að við reynum að gera sem allra mest sjálf. Við reynum að fá fram sem allra best hross, temjum þau, þjálfum og sýnum. Til þess að þetta gangi upp höfum við valið þá leið að vera með frekar fá hross, erum að fá frá 5 og upp í 8 folöld á ári.
Ég sé litla möguleika á að hrossarækt standi undir sér sem búgrein, ein og sér. Til þess þurfa hrossabændur helst að geta tamið sjálfir og jafnvel sýnt. Ég held að það séu fáir sem lifa eingöngu á hrossarækt þó kannski séu þeir til. Langflestir stunda þetta sem aukabúgrein eða þá sem tómstundagaman.
Mesti möguleiki fyrir þann sem vill lifa á hrossarækt og hestamennsku er að geta tengt hana tamningum, þjálfun og sölu á hrossum og/eða annarri þjónustu t.d. eins og kennslu og námskeiðahaldi. Markaðurinn hefur breyst og vill aðeins góð og vel tamin hross, eins er líka mikil eftirspurn eftir vel ættuðum kynbótahryssum.
Lífsstíll
Baldvin Kr. Baldvinsson í Torfunesi:
Ég hætti með sauðfé í fyrrahaust og er núna eingöngu með hross. Ræktunin ein gefur óreglulegar tekjur. Stundum getur komið langur tími, þegar engin sala er, en síðan komið söluhrota. Þessi tími er dýr og étur upp söluhagnað. Erfitt er að stilla ræktunartekjur af. Það er dýrt að fjármagna biðina eftir hrotunni. Því er ekki tæknilega mögulegt að lifa eingöngu af ræktun. Ég hef verið heppin með ýmsar góðar sölur, en það nægir ekki eitt út af fyrir sig.
Ég hef verið að koma undir mig fótunum í hliðargreinum ræktunar. Til dæmis komið mér upp beinu sambandi við ýmsa kaupendur innanlands og erlendis og tekið hross annarra í umboðssölu. Ég er byrjaður með hestaleigu í Torfunesi og hef reynt fyrir mér með hestaferðir. Þetta telur allt. Svo frumtem ég öll mín hross sjálfur, en fæ þó atvinnumenn til að framhaldstemja þau og sýna. Með öllu samanlögðu gengur dæmið vonandi upp.
Ræktun hrossa er fyrst og fremst lífsstíll og hugsjónastarf fremur en atvinnuvegur. Til þess að lifa, þurfa menn að sinna sem allra flestum þáttum hestamennskunnar. Ungt fólk þarf að afla sér réttinda á sem flestum sviðum hennar til að geta starfað í greininni. Góð ræktun getur komið að gagni sem gæðastimpill á annað, sem verið er að gera. Þannig getur hún komið að gagni á annan hátt en í beinhörðum peningum. Ég hef til dæmis haft gagn af því, að Torfunes er víða orðið þekkt nafn.
Ekki er nauðsynlegt að vera í nábýli við markaðinn til að geta stundað þessa grein. Það munar að vísu 10.000 krónum í flutningi á seldum hesti. En annað kemur á móti, sem er ódýrara í umhverfinu hér fyrir norðan, svo sem ódýrari þjónusta á sumum sviðum og ódýrari húsakostur. Með tölvutækni er hægt að vera í nánu sambandi við markaðinn og selja hross beint, þótt maður búi norður í Þingeyjarsýslu.
Menn þurfa að átta sig á, að markaðssetja og kynna þarf hross eins og annað, sem menn framleiða. Ekki gengur að bíða eftir kaupanda heima. Líka má benda á að mikið veltur á því fyrir okkur á landsbyggðinni, að við stöndum saman um að koma okkar svæði á kortið og vinna því sess í huga markaðarins. Mér finst við ekki hafa staðið okkur sem skyldi í þessum efnum.
Einnig þarf að koma einhverju skikki á hrossasölu. Mér finst ég verða allt of mikið var við fólk, sem býður hross á mjög lágu verði. Spurning er, hvað borgar þetta fólk til samfélagsins af þessum sölum. Við hrossabændur borgum sjóðagjöld og búnaðargjald og virðisauka af okkar hrossum, en það virðist vera fullt af fólki að bjóða hross og selja án virðisaukask atts. Þetta gerir hrossabændum mjög erfitt fyrir.
Ójafnt tekjuflæði
Ólafur Hafsteinn Einarsson
Félagsmenn Félags tamningamanna eru í auknum mæli tamningamenn og reiðkennarar í senn, enda útskrifast jafnt og þétt fólk frá Hólum með próf í báðum greinum. Þeir reyna að koma sér fyrir á þessum tveimur sviðum og stunda margir einnig járningar og önnur störf, sem falla til í greininni.
Séu þeir búsettir í dreifbýli, eru þeir oft með hóflega hrossarækt til hliðar og ýmsa þjónustu, svo sem ferðaþjónustu, ráðgjöf, vistun hrossa og hagabeit. Ræktunin hefur þá sérstöðu, að hún tekur mikinn tíma og tekjuflæðið er ójafnt. Hún getur aðeins í fáum tilvikum verið undirstaða í tekjuöfluninni.
Blandaðan þjónustubúskap af þessu tagi er hægt að stunda alls staðar á landinu. Í öllum landshlutum hafa risið myndarleg bú utan um fjölbreytta hrossaþjónustu.
Ekki má heldur gleyma því, að fyrir mörgum er búseta í dreifbýli eins konar lífsstíll. Til sögunnar hafa komið efnamenn innlendir og erlendir, sem hafa byggt upp jarðir og stuðlað að glæsilegri ásýnd hestamennskunnar, sem kemur allri greininni að gagni og skapar mörg störf í hestamennskunni.
Ásýnd hestamennskunnar hefur verið að breytast og er það að hluta tilkomið vegna bættrar menntunar tamningamanna og reiðkennara. Þeim sem hafa einhverja hestatengda starfsemi sem aðal atvinnu hefur í kjölfarið fjölgað.
Okkar kynslóð hrossabænda er eins konar brautryðjandi, sem er að finna sér farveg í hestum. Sauðfjárbændur og kúabændur feta yfirleitt slóð, sem áður hefur verið farin, en hrossabændur eru að finna sér nýjan farveg sem framleiðendur og þjónustubændur.
Mikilvægur þáttur í þessu er reiðkennslan, sem flýtir fyrir útbreiðslu þekkingar, stuðlar að fjölgun iðkenda og eflir samband við fólk innan lands og utan. Starf reiðkennaranna er þannig grunnurinn að vexti greinarinnar.
Ræktun er mikilvæg. Áhugi á hrossarækt er mikill og þeir sem ná þar góðum árangri eru þar með að stimpla sig inn hjá stórum hópi fólks. Áhugi útlendinga á kynbótasýningum landsmóta sýnir, að ræktun er aðdráttarafl.
Hver atvinnumaður finnur sér blöndu við hæfi og aðstæður. Margir leggja mesta áherzlu á einn þáttinn og hafa hina meðfram, eru til dæmis aðallega í ferðaþjónustu eða aðallega í ræktun eða aðallega í kennslu og tamningum. Sumir bæta tekjuflæðið, einkum fyrstu árin í greininni, með því að taka tímabundin störf á óskyldum sviðum.
Farsælast fyrir byrjendur er að hafa öll spjót úti til að byrja með og finna síðan, hvaða þætti skynsamlegast er að hafa í fyrirrúmi. Mér sýnist, að ungt fólk, sem kemur til starfa í greininni, átti sig yfirleitt á þessu og finni sér nokkuð fljótt þá samsetningu á starfseminni sem þeim hentar.
Borgum ekki fyrir ræktun
Brynjar Vilmundarson
Enginn getur lifað af hrossarækt einni sér, þótt hann sé heppinn, klár og duglegur. Flestir hafa ekki einu sinni upp í útlagðan kostnað, hvað þá upp í eigin vinnu. Þeir, sem hafa reynt þetta, hafa lent í miklum fjárhagserfiðleikum. Það er hægt að lifa eingöngu af tamningum eða járningum, sýningum eða kennslu, ferðaþjónustu eða braski, en ekki af ræktun. Hún getur ekki skilað neinum arði, aðeins ánægju, sem ekki mælist í peningum.
Allir ræktunarmenn niðurgreiða hana með tekjum af öðru, sumir af störfum á öðrum sviðum hestamennsku, aðrir af utanaðkomandi tekjum. Algengast er, að hrossaræktarmenn nái tekjum með því að temja fyrir aðra og stunda önnur hliðarstörf í greininni.
Ungt fólk með menntun í tamningum og reiðkennslu fær sér vinnu á öðrum sviðum. Í þéttbýlinu er það í fastri vinnu og notar síðan frítímann um kvöld og helgar til að ganga milli húsa í hesthúsahverfum, þjálfa hross og sinna annarri þjónustu. Í strjálbýlinu fer það á vertíð eða stundar önnur tímabundin störf, þegar þau gefast, og er í hestum þess á milli.
Víða er slíkt fólk enn í föðurgarði að sinna hrossum og hrossarækt, án þess að sá rekstur leggi nokkuð af mörkum til sameiginlegra þarfa búsins og án þess að kostnaður við ræktunina sé reiknaður sérstaklega. Í þeim tilvikum er hrossaræktin byrði á öðrum búrekstri.
Ef við förum yfir nöfn þeirra, sem standa sig bezt í hrossarækt, sjáum við, að megintekjur þeirra allra koma úr öðru en ræktun, í sumum tilvikum úr öðrum greinum hestamennskunnar og í öðrum tilvikum úr óskyldum greinum, jafnvel frá útlöndum.
Þekktir sýningamenn og hestakaupmenn hafa farið út í vandaða hrossarækt, ekki til að græða á því, heldur sér til andlegrar upplyftingar. Allir niðurgreiða þeir ræktunina af öðrum tekjum sínum, en nota ræktunina auðvitað til að auka hróður sinn víða um heim.
Allt þetta fólk er í hrossarækt af ástríðu, en ekki til að hafa upp í kostnað. Ræktunin er að flytjast í hendur hugsjónamanna, sem hafa efni á að leita sér lífsfyllingar á þessu sviði. Þess vegna fjölgar þéttbýlisfólki, sem er með örfáar góðar merar, kaupir á þær dýrustu stóðhesta og reiknar aldrei heildarkostnaðinn.
Góðu hrossin í landinu koma frá öllu þessu fólki. Vondu hrossin koma hins vegar frá fjöldaframleiðendum, sem fá lánaða titti undan 1. verðlauna foreldrum og nota á óræktarstóð af ósýndum merum. Tittirnir hafa 125 stig í blöppi, en geta samt ekki lagað óræktarstóðið. Úr þessu koma folöld og trippi, sem eru seld út á ömmuna og afann á 15-20 þúsund krónur eða helminginn af því, sem alvöru ræktunarfólk borgar í folatoll.
Þessi undirboð valda miklum óskunda, halda botnverðinu niðri og valda því, að taminn hross eru seld á minna en 200.000 krónur eða innan við tamningakostnað. Draga mætti stórlega úr þessu böli með því að láta greiða 10-15 þúsund krónur fyrir hvert hross, sem fer í Feng. Þetta hef ég árum saman sagt forustuliði hrossabænda, en þeir skilja þetta ekki og verða alltaf jafn vanstilltir.
Ég hef verið heppnari í hrossarækt en margir aðrir. Samt stendur mín ræktun ekki undir sér. Hún er fjármögnuð af því, sem ég hef aflað mér í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Mér finnst frábært, þegar menn geta fengið erlenda hugsjónamenn til að fjármagna ræktunina og harma það bara, að hafa ekki fundið neinn slíkan sjálfur.
Góð ræktun er stunduð af fólki, sem getur farið til sólarstranda fyrir hálfa milljón króna á ári, en notar peningana í staðinn í ræktun. Góður vinur minn reiknaði út, að það fé, sem ég hef lagt í hrossarækt, hafi ég sparað annars staðar með því að reykja ekki og fara ekki til útlanda í aldarfjórðung.
Fjárfesting mín í reiðskemmu í haust er þó til viðbótar þessu reikningsdæmi.
Miklir peningar eru í hestamennsku og sumir geta haft miklar tekjur, ekki sízt kaupmenn og kennarar. Við höfum hins vegar aldrei borgað fyrir ræktun. Hún er ekki atvinnuvegur, heldur lífsstíll.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi, 1.tbl. 2004.