Hugsjónagöt og önnur göt

Greinar

Fundin hafa verið jarðgöng, sem borga sig. Hjá Vegagerðinni hefur verið reiknuð 15% arðsemi í vegargöng undir Hvalfjörð. Það er svipuð arðsemi og stofnunin hefur reiknað í bundið slitlag á vegum landsins og mun meiri en er í venjulegum brúm, hvað þá Hvalfjarðarbrú.

Í reikningi þessum er miðað við, að afskrifa megi göng nálægt járnblendiverksmiðjunni á 30 árum á þennan hátt, ef 800 bílstjórar á dag vildu greiða hóflegan vegartoll. Hugmyndir um göng utar í firðinum og 2.000 bíla umferð á dag virðast óraunsærri við fyrstu sýn.

Allar arðsemistölur Vegagerðarinnar verður að taka af varúð. Stofnunin hefur leikið sér að því að telja alla undirbyggingu vega til byggðastefnu, sem ekki má verðleggja, og reikna síðan arðsemi í slitlagið ofan á. Þannig hafa ótal vegir á landinu orðið arðbærir með handafli.

Stofnunin er kölluð Vegagerð ríkisins, en ætti raunar að heita Vegagerð þingmanna. Allt bútastarf hennar er miðað við að þjóna hagsmunum þingmanna landsbyggðarinnar í réttum hlutföllum. Þess vegna er slitlag aðeins hér og þar í allt of dýrum bútum hringvegarins.

Samt eru tölur Vegagerðarinnar um arðsemi hinar einu, sem við höfum. Ef stofnunin vill verða Vegagerð þjóðarinnar, ber henni að efla útreikninga á arðsemi ýmissa vegakosta og gera þá traustari en nú er, en einkum þó ýta niðurstöðunum að þingmönnum og þjóð.

Athyglisvert er, að fólk talar um vegartoll í Hvalfjarðargöngum eins og sjálfsagðan hlut. Menn vilja geta valið milli þess að borga hóflegan toll, til dæmis 400 krónur á bílinn, og að borga benzín og rekstur í 45­50 kílómetra krók fyrir fjörðinn. Það eru heiðarleg viðskipti.

Hins vegar dettur engum í hug að reikna toll í Ólafsfjarðargöngin fyrirhuguðu. Fólk veit, að umferðin þar verður svo lítil, að tollur, sem bílstjórar gætu sætt sig við að borga, mundi samanlagt vart duga fyrir launum tollheimtumanna og alls ekki upp í vexti af lánum.

Aðdragandi gatsins í Ólafsfjarðarmúla er annar. Þingmenn og fjölmiðlungar svæðisins fóru með fríðu föruneyti suður til samgönguráðherra til að fræða hann um, að frá byggðasjónarmiði vantaði hálfan milljarð í svona göng. Degi síðar ákvað ráðherra að fá þessi göng.

Ólafsfjarðargöngin eru ekki versta fjallagat, sem hugsazt getur. Kostnaðaráhyggjur vegna þeirra byggjast miklu fremur á hræðslu við ráðagerðir, sem fylgja í kjölfarið. Vegagerðin og Byggðastofnunin hafa nefnilega reiknað göt í fjöll um Aust- og Vestfirði vítt og breitt.

Fyrr en síðar má búast við, að þingmenn og fjölmiðlungar fjölmenni á fund samgönguráðherra og segi honum, að frá byggðasjónarmiði vanti milljarð í Vestfjarðagöng og tvo milljarða í Austfjarðagöng. Þessum gildu rökum getur ráðherra líklega ekki andmælt.

Af ýmsum slíkum ástæðum er þjóðin peningasnauð um þessar mundir. Sjálfvirk afgreiðsla fjármagns til fagurra hugsjóna veldur því, að ekkert er gert í hugmyndum um Hvalfjarðargöng, enda ekki byggðagöng í hefðbundnum skilningi og þar á ofan líklega arðbær.

Meðan fagrar hugsjónir blómstra í borun fjalla býr meirihluti þjóðarinnar við sífellt og samfellt umferðaröngþveiti frá Hafnarfirði til Mosfellssveitar og frá Breiðholti til Seltjarnarness. Í Kringlunni hefur verið opnuð sýning á óleystum vegaverkefnum þessa svæðis.

Þannig stendur þjóð, sem veit ekki aura sinna tal, þegar í húfi eru æðri verðmæti að hennar mati, en á ekki fyrir salti í graut, ef um arðbær verk er að ræða.

Jónas Kristjánsson

DV