Humarhúsið

Veitingar

Humarhúsið er ein af notalegustu matstofum landsins, lítill staður með vönduðum húsbúnaði, sem hæfir gömlu húsi. Hér hafa nokkrir veitingastaðir verið í röð, en þessi hefur bezt viðmót að yfirbragði og þjónustu. Einnig er matreiðslan betri en hún hefur áður verið og er raunar af traustasta tagi.

Þetta er með dýrustu stöðum borgarinnar. Þríréttað kostar 3.400 krónur af fastaseðli, þótt ekki sé valinn tæplega 3.000 króna humar í aðalrétt. Einn af fimm réttum dagsins, aðallega fiskur, kostar 1.600 krónur að kvöldi og 1.200 krónur í hádegi. Þannig er Humarhúsið í hádeginu dýrari kostur en öndvegisstaðurinn Holt og hefur þó ekki einu sinni lín í munnþurrkum.

Hvítmálað loft og burðarviðir hæfa húsinu. Léttar messingskrónur hanga yfir vönduðum antíkborðum með stólum í stíl og gömlu trégólfi. Grænir plattar vernda nakin tréborð í hádegi og víðir málmdiskar að kvöldi. Borðsalurinn rúmar ekki nema 30 manns, en uppi á lofti er líka borðpláss í tveimur herbergjum inn af setustofu. Ella Fitzgerald og Louis Armstrong eru hæfilega lágt stillt. Þjónusta er góð, svo sem tíðkast hér á landi.

Vottur af tilþrifum er í hóflega verðlögðum vínlista, þótt árganga sé ekki getið. Þar má finna sýnishorn frá fjarlægum löndum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Chile, auk athyglisverðra tegunda frá hefðbundnum vínlöndum Evrópu, þar á meðal nokkurra sætra eftirréttavína. Stytt útgáfa vínlistans er boðin í hádeginu.

Tilþrif eru meiri í forréttum hlýraskinns-matseðils, sem hefur þá ágætu sérstöðu, að þar eru matreiðslumenn nafngreindir, Guðmundur Þór Gunnarsson og Hafsteinn Sigurðsson. Í senn er sjaldgæft og traustvekjandi, að slíkir þori að leggja nafn sitt við útkomuna á diskum gesta. Það vekur líka traust, að fiskréttir eru ekki á fastaseðli, heldur breytilegum seðli dagsins.

Tómatsúpa dagsins var vel rjómuð, þrungin tómatstrimlum og oregano-kryddi. Tært kálfaseyði dagsins var gott, með hæfilega stinnu grænmeti. Ítölsk fiskisúpa hafði tómat að grunni, mikið rjómuð og full af góðmeti úr hafinu.

Skemmtilegasti forrétturinn var japanskt sashimi, sýnishorn af kryddlegnum sjávarréttum, borin fram með prjónum. Þar mátti finna hráan lax, lúðu, humar, höfrung og raunar einnig lambakjöt. Þetta var tindrandi ferskt og gott. Fallegt humarsalat var líka ferskt og gott, með ferns konar osti, þar á meðal grana og feta; olífum, sólþurrkuðum tómötum og ávaxtabitum, borið fram með edikblandaðri olífuolíu.

Smjörsteikt lúða með humri, ætiþistli og saffransósu var léttelduð og afar góð; sömuleiðis smjörsteikt keiluflök með hvítlauksristuðu grænmeti og kapers. Af sjö rétta humarskrá hússins voru valdir pönnuristaðir humarhalar með saffran-smjörsósu, vel heppnaður matur.

Léttsteikt villigæsabringa með blönduðum hnetum og sykurgljáðum skalotlauk var afar góð. Eldsteikt piparsteik var meyr, en af bragðlausum Galloway grip, bragðbætt með magnaðri grænpiparsósu af indverskum ættum. Bragðmilt höfrunakjöt var mun betri og skemmtilegri matur, með engifer og blaðlauk.

Eftirréttir voru upp og ofan, frískleg skyrterta, blönduð ástríðuávöxtum; og kaffiblönduð rjómaostaterta, falin innan í hringlaga köku. Espresso kaffi var ekta.

Jónas Kristjánsson

DV