Humarhúsið

Veitingar

Bezta ástæðan til að sækja Humarhúsið heim kemur ykkur ekki á óvart, frábær humar, einkum í einfaldri matreiðslu, hvítvínsvættur og hvítlaukskryddaður og síðan grillaður hæfilega skamman tíma. Á boðstólum eru raunar ellefu mismunandi matreiðsluaðferðir á humri.

Löngum og hugmyndaríkum matseðli fylgir matreiðsla í hæsta gæðaflokki hér á landi. Stíllinn er þó ekki hreinn, því að mikið er kaffært í sósum og meðlæti er staðlað. Hvergi urðu þó bein mistök nema í hálfhráum, feitum og seigum andakjötssneiðum.

Lítið og notalegt humarhúsið er gamaldags og stílhreint að vönduðum antíkbúnaði. Á kvöldin glitra víðir málmdiskar og fagur borðbúnaður á hvítum dúkum í birtu léttra messingskróna. Fegurri veitingasalur er ekki til í landinu.

Hér er góður og fjölbreyttur, en ekki árgangamerktur vínlisti, sem leitar víða fanga í fjarlægum löndum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, Chile og Líbanon, þótt hefðbundin Ítalía og Frakkland séu í fyrirrúmi.

Verðlagið er hagstætt í hádeginu, þegar tær súpa og val milli þriggja fiskrétta fæst á 1190 krónur. Að kvöldi er þetta hins vegar einn af dýrustu matstöðum landsins. Þá kostar þríréttað með kaffi um 4.400 krónur á mann.

Hádegissúpan reyndist vera tær gæsasúpa með strimlum af gæsakjöti og grænmeti, frábær hvíld frá þykku hveitilímssúpunum, sem fást um alla borg. Til fyrirmyndar var bragðmildur saltfiskur í lögum, með kampavínssósu, einföldu hrásalati og steinselju í olíu. Meyr og fín var sesamhjúpuð risahörpuskel með maískornum, grænmetis-smábitum og baunaspírum.

Gott var sítrus- og kryddgrafið lamb með balsam-olíu og sesamfræjum. En bezti forrétturinn var rósmarínkrydduð og léttsteikt rjúpubringa með fjallagrösum og rauðvínssoðnum eplakúlum.

Pönnusteikt keila var hæfilega elduð, borin fram með þunnri piparsósu með grænum piparkornum heilum, fallegu hrásalati með miklum rauðlauk. Ristaður steinbítur var einnig hæfilega eldaður og fallega fram borinn með óvenjulega maukuðu og rjómuðu risotto með stórum og meyrum krabbabitum.

Andabringusneiðar á beini voru of léttsteiktar og fremur seigar, bornar fram með hindberjasósu, perlulauksultu og léttsteiktu grænmeti stöðluðu. Mun betra var léttsteikt lambafillet, fínt og meyrt, með döðlum, stórum sveppum, papriku, rifsberjum, bakaðri kartöflu og anís, en flaut í of mikilli rósmarínsósu.

Blönduð og gratineruð ber voru góð, sömuleiðis mjúk karamellu- og mokkaterta á stökkum hnetubotni, svo og hvítt og bragðmilt súkkulaðifrauð á ferskri hindberjasósu. Kaffi var gott.

Jónas Kristjánsson

DV