Humarhúsið, Pasta Basta, Ítalía

Veitingar

Humarhúsið í toppformi
Grafin villigæsabringa með trönuberjum var frábær forréttur og undurmeyr risahörpuskel á polenta-beði með bragðmildu graskers-risotto var enn betri. Grillhumar í hvítlauk var fínn eins og vera ber á Humarhúsinu og nákvæmt pönnusteikt rauðspretta með afar fínu engifersoðbragði var einhver bezti matur, sem ég hef fengið í vetur.
Humarhúsið hefur lengi verið gott, en er nú komið í þriðja sæti matargerðarlistar á Íslandi næst á eftir Sommelier og Hótel Holti. Antik-umhverfi og glansandi aðbúnaður og fagmannleg þjónusta gefa matreiðslunni ekki eftir.
Gott er að sjá, að Humarhúsið hefur slegið í gegn. Það var fullt á venjulegu kvöldi og borð nýttust um leið og þau losnuðu. Nú er komið gott fordrykkjarpláss í turnhúsinu meðan fólk bíður eftir borði. Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 4000 krónur af kvöldseðlinum, en dýrir humarréttir lyfta meðalverði fastaseðilsins í 4800 krónur.

890 króna pasta-hádegi
Hlaðborðið í hádeginu hefur batnað og kostar ekki nema 890 krónur, þótt annað sé dýrt á Pasta Basta. Þar voru um daginn þrenns konar pasta, dauflegt penne, betra spaghetti og ágætt tagliatelle með kræklingi í skelinni. Blóðbergs-risotto með rækjum var ágætt. Allt var þetta því miður bara moðvolgt. Betri var sterk tómatsúpa með oregano og bezt var raunar ítalska blaðsalatið.
Einkenni margra þemastaða á borð við Pasta Basta, Ítalíu og Út í bláinn er svipað verðlag og á sumum beztu veitingahúsum landsins, svo sem Humarhúsinu, Iðnó og Tveimur fiskum, þótt allt sé lakara á fyrrnefndu stöðunum, matreiðsla, aðbúnaður og þjónusta. Þríréttað á Pasta Basta með pasta sem aðalrétt kostar að meðaltali 3800 krónur og þríréttað með öðru en pasta kostar að meðaltali 4600 krónur, hvort tveggja með kaffi.

Ítalía í þrefaldri fýlu
Þrír fulltrúar veitingahússins Ítalíu hafa opinberlega kvartað um þrennt, þar á meðal að ég hafi sagt staðinn vera þjóðlegan íslenzkan matsölustað fremur en ítalskan og vil ég árétta þá skoðun. Pasta og pitsa nægja ekki til að kalla matreiðslu ítalska.
Þeir spurðu líka, hvaðan ég hefði, að notaður sé frystur fiskur. Ég spurði þjónustuna, sem fór fram í eldhús og kom með svarið, að fiskurinn væri frystur. Sú er heimildin og voru vitni að því. Ef starfsfólk veit lítið um matinn, stafar það af, að þar starfar ólært fólk á lágu kaupi, þótt verðið sé miðað við staði, sem hafa dýrt fagfólk í vinnu.
Þriðja atriðið, sem þeir kvarta um, er, að ég telji eftirréttinn tiramisu upprunninn í Bologna, sem þeir segja að hafi verið í Feneyjum. Sú var einmitt skoðunin, sem ég hafði fyrir nokkrum árum, þegar ég skrifaði bækur mínar um Róm og Feneyjar, en síðan þá hef ég skipt um skoðun og stend við hana.

Jónas Kristjánsson

DV