Hallinn nemur átján milljörðum á drögum fjárlagafrumvarps næsta árs. Á fundi sínum í dag mun ríkisstjórnin reyna að horfast í augu við óvættina og hefja fálm við að koma henni niður fyrir tíu milljarða. Það væri samt gífurlega mikill halli, enn eitt Íslandsmet.
Tíu eða átján milljarða hallinn stafar ekki af aðgerðum til að auðvelda sjávarútveginum að lifa af fyrirsjáanlegan aflabrest. Ef ríkisvaldið hleypur undir bagga meðan þorskstofnarnir hafa ekki náð sér, mun fjárlagahallinn vaxa upp úr tölunum, sem hér hafa verið nefndar.
Svo virðist sem ráðherrar telji sig hafa sparað í botn á þessu ári og treysti sér ekki til að spara meira á næsta ári. Þar við bætist, að fjármálaráðherra hefur ekki bein í nefinu til að knýja fram aukinn niðurskurð. Ríkisstjórnin er því máttvana gagnvart óvætt fjárlagahallans.
Flest bendir til, að ríkisstjórnin muni einkum beita skattahækkunum og lántökum til að minnka hallann. Þannig mun hún stækka ríkisgeirann af minnkandi þjóðarköku. Það er ekki gæfuleg leið, enda dregur hún úr getu atvinnulífsins til að standa undir yfirbyggingunni.
Þetta þrýstir líka vöxtum upp á við. Af síðustu tilboðum í ríkisvíxla má ráða, að ríkið mun vafalítið halda þeim upptekna hætti að hafa forustu í slagsmálum lántakenda um peninga lánveitenda. Ríkisstjórnin mun því gera að engu vonir manna um frekari lækkun vaxta.
Þannig mun ríkisstjórnin beita skaðlegum aðferðum við að ná fjárlagahalla næsta árs úr átján milljörðum í tíu. Síðan mun hún missa nokkra milljarða til baka, þegar hún reynir að verja sjávarútveginn falli í kjölfar óhjákvæmilegra aðgerða til að stöðva ofveiði á þorski.
Ríkisstjórnin mun reyna að afsaka sig með aðild sinni að síðustu þjóðarsátt, sem setur skorður við sparnaði. Samkvæmt henni lofaði ríkisstjórnin að verja tveimur milljörðum til skópissinga í formi atvinnubótavinnu og til handaflsaðgerða í von um nýsköpun í atvinnulífi.
Athyglisverðast er, að ríkisstjórn, sem hefur fyrst allra ríkisstjórna alveg misst tökin á ríkisfjármálunum, lætur sér alls ekki detta í hug að höggva í þá rúmlega tuttugu milljarða, sem hinn hefðbundni landbúnaður kúa og kinda kostar þjóðarbúið á hverju einasta ári.
Þetta er í samræmi við þjóðarsáttina. Aðilar vinnumarkaðarins létu sér alls ekki detta í hug, að neitt samhengi væri milli vaxandi þjóðareymdar annars vegar og rúmlega tuttugu milljarða árlegrar sóunar þjóðfélagsins í varðveizlu úreltra atvinnuhátta og ofbeitar.
Tilraunir sjórnvalda til að draga úr óheyrilega dýrri offramleiðslu á búvöru hafa ekki leitt til sparnaðar, hvorki hjá skattgreiðendum né neytendum. Hinir fyrrnefndu eru í ár látnir greiða níu milljarða á fjárlögum og hinir síðarnefndu tólf milljarða í of háu vöruverði.
Meðan þjóðin sem heild sættir sig við tvo framsóknarflokka í ríkisstjórn, þrjá framsóknarflokka í stjórnarandstöðu og nokkra framsóknarflokka til viðbótar hjá aðilum vinnumarkaðarins, mun hún sökkva dýpra í fen atvinnuleysis og fátæktar, vonleysis og landflótta.
Þessi þjóðarvilji endurspeglast meðal annars í ríkisstjórn, sem hefur enga stjórn á fjármálum ríkisins, slær hvert Íslandsmetið á fætur öðru í fjárlagahalla, fer senn að slá Íslandsmet í sköttum og hefur forustu um að flytja þjóðfélagið aftur í tímann til mun lakari lífskjara.
Ríkisstjórnin, sem á fundinum í dag horfist í augu við átján milljarða halla á drögum fjárlagafrumvarps, veldur ekki hlutverkinu og hefur gefizt upp við að reyna það.
Jónas Kristjánsson
DV