Hundaeigenda-vandinn.

Greinar

Hundahald í tiltölulega dreift byggðu nágrenni Reykjavíkur hefur sumpart haft jákvæð áhrif. Börn hafa til dæmis víða vanizt hundum og eru að mestu hætt að stríða þeim. Þannig hafa hundar að nokkru leyti fallið inn í þetta umhverfi.

Um leið hefur aukið hundahald haft í för með sér aukin vandamál. Hluti hundaeigenda fer ekki eftir neinum reglum, hverjar svo sem þær eru, og jafnvel ekki þeim, sem beinlínis eru settar til að liðka fyrir hundahaldi.

Flestir eigendur hunda fara eftir reglum og eru ekki til vandræða. Á milli er þó fólk, sem á erfitt með að stunda mannleg samskipti á jafnréttisgrundvelli. Það hefur fengið sér hund, svo að til sé þá einhver, sem líti upp til þess.

Sumt þetta fólk tekur ekkert mark á hefðum í mannlegum samskiptum, til dæmis ekki þeim, sem felast í lögum og reglum. Það fer sínu fram, hvað sem tautar og raular. Það tekur sér hreinlega rétt, sem það á ekki.

Raunar er sumt af þessu fólki hið viðskotaversta, sem hugsast getur. Hundarnir draga síðan dám af húsbændum sínum. Þeir geta ekki umgengizt ókunnuga og valda óhjákvæmilega vandræðum, þótt bæjarstjórnir kjósi að loka augum.

Konan, sem viðraði hundinn í Gróttu, alfriðaðri um varptímann, er dæmi um fólk, sem er lokað fyrir umhverfi sínu. Ekkert kemst að, nema þess eigin sjálfselska. Þetta fólk er hið raunverulega vandamál hundahaldsins.

Sumir halda því fram, að hundahald með skilyrðum í nágrenni Reykjavíkur, það er í Garðabæ, Mosfellssveit og Seltjarnarnesi, hafi gefizt vel. Staðreyndin er hins vegar, að ástandið hefur í heild versnað.

Eftirlit með, að farið sé eftir skilyrðum hundahalds, er í lágmarki. Þótt eftirlitsmenn séu allir af vilja gerðir, er ógerlegt að sinna þessu í hlutastarfi. Í 3000 manna bæjarfélögum á þetta að vera minnst fullt starf.

Á sumum tímum kann að vera þörf á enn harðara eftirliti. Um varptímann er til dæmis nauðsynlegt að hafa 24 klukkustunda vakt í Gróttu og Suðurnesi til að stöðva hundaeigendur í að útrýma fuglalífi í þessum vinjum.

Svo að hægt sé að herða eftirlitið, þarf að hækka árgjöldin, sem hundaeigendur greiða. 1.500 króna gjald er gersamlega ófullnægjandi til að standa undir nauðsynlegum kostnaði, þar á meðal hertu eftirliti.

Auk þess þarf að setja reglur um háar fjársektir þeirra, sem láta sér ekki segjast. Á núverandi verðlagi mætti til dæmis sekt við fyrsta broti vera um 10.000 krónur og fara síðan ört hækkandi við endurtekin vandræði.

Raunar væri snöggtum skynsamlegra að beina þannig refsingunni að hinu raunverulega vandamáli, heldur en hundunum. Í stað þess að lífláta óábyrga hunda er miklu heppilegra að sekta hundaeigendur, sem eiga að vera hinir ábyrgu aðilar.

Ef á slíkan hátt reynist unnt að hindra hinn sjálfselska hluta hundaeigenda í að sleppa hundum sínum lausum, væri stigið mikilvægt skref í að gera hundahald þolanlegt öðru fólki í tiltölulega dreifðri nágrannabyggð Reykjavíkur.

Hins vegar verður að draga í efa, að unnt yrði að lina hundavandann á sama hátt í tiltölulega þéttri byggð Reykjavíkur. Ef til þess kæmi, þyrfti örugglega að hafa fleiri og harðari skilyrði en þau, sem mistekizt hafa í nágrenninu.

Jónas Kristjánsson

DV