Ein af forsendum rökfræðinnar sem vísindagreinar er, að ekki sé víst, að A styðji B, þótt B styðji A. Á mæltu máli þýðir þetta, að ekki sé víst, að Írak styðji Al Kaída samtökin, þótt Al Kaída samtökin styðji Írak. Enda gat Osama bin Laden ekki stillt sig um að lýsa frati á guðleysingjann Saddam Hussein í nýjustu ræðunni, þar sem hann bað menn um að styðja Írak. Kenningar Colin Powell og annarra ráðamanna Bandaríkjanna um, að stuðningur Al Kaída við málstað Íraks jafngildi stuðningi Íraks við Al Kaída er hrein rökleysa, svokölluð hundalógík, sem sýnir rökfræðilegt gjaldþrot árásarstefnu Bandaríkjanna.