Hundaskítur á forsíðu

Fjölmiðlun

Forsíðumynd Moggans er gamalkunn mynd af manni í rúmi. Hann er sagður hafa slasast, sem sést þó ekki á myndinni. Samt ber Mogginn höfuð og herðar yfir önnur dagblöð í forsíðumynd dagsins. DV er sem oftar ekki með eiginlega forsíðumynd. En með forsíðufréttinni er safnmynd af húsum, sem tengjast ekki fréttinni. Fréttablaðið er með drungamynd af ónafngreindu fólki og meðfylgjandi texta, sem virðist vera óbein auglýsing fyrir Ingvar Helgason. Botninum ná svo 24 stundir með nærmynd af hundaskít á forsíðunni, óhentugt á morgunverðarborði. Ljósmyndastjórar dagblaðanna þurfa að taka sér tak.