Hundrað orða kort af Gent

Ferðir

Borgarmiðjan í Gent í Belgíu er á torginu Korenmarkt við Nikulásarkirkju. Þaðan eru 500 metrar til suðurs að lúðrasveitartorginu Kouter, þar sem verzlanahverfið er. Þar á milli er háskólinn. Til norðurs eru 500 metrar að markaðstorginu Vrijdagmarkt. Þar á milli eru hótelin. Austur frá Korenmarkt er röð smátorga við turnana Belfort og Baafs-dómkirkju. Til vesturs í 100 metrum er áin Leie með útivistarbökkum, þar sem eru matar- og kaffihúsin. Á öllu þessu svæði með kortérs gönguradíus eru mest um fínar göngugötur. Undir torgunum Kouter og Vrijdagmarkt eru svo bílageymslur fyrir fólk í bæjarferð.