Neyðarástand hefur áratugum saman ríkt í húsnæðismálum Reykjavíkur, eins og í flestum borgum heims og í flestum bæjum landsins. Þetta er eins og náttúrulögmál, sem allar aðgerðir brotna á eða magna jafnvel, þegar verst lætur.
Þegar íbúafjöldi Reykjavíkur staðnaði fyrir nokkrum árum, án þess að neitt drægi úr húsbyggingum, var ástæða til að búast við linari þjáningum á leigumarkaðnum. En það óvænta gerðist, að bati sást enginn.
Íbúðaeigendur hafa ekki minnkað við sig, þótt börnin fljúgi úr hreiðri og makinn hverfi af vettvangi. Hinni miklu mannfækkun í gömlu hverfunum hefur ekki fylgt neitt verulegt framboð á nýju leiguhúsnæði.
Almennt tregðulögmál ræður hér mestu. Ekki má þó vanmeta ótta íbúðaeigenda við leigu og leigjendur, verðstöðvun og húsaleigulög. Fjöldi fólks treystir sér hreinlega ekki til að bjóða leigu í fjandsamlegu andrúmslofti.
Mikið framboð er á leiguhúsnæði í sumum löndum gamals auðs. Í Bretlandi eru til dæmis heilu hverfin í eigu auðugra ætta. Hér á landi er hins vegar mjög sjaldgæft, að fjölskyldur eigi meira en eina eða tvær íbúðir.
Einnig er mikið framboð á leiguhúsnæði í sumum löndum félagshyggju. Í Svíþjóð hefur hið opinbera reist heilu hverfin í þessu skyni. Hér á landi hefur hinn sameiginlegi kassi verið talinn hafa lítið bolmagn til slíks.
Okkar ástand er þó engan veginn verra en í Bretlandi og Svíþjóð, svo að ofangreind dæmi séu tekin. Við höfum nefnilega í staðinn komið upp þeirri siðferðilegu kröfu, að allir verði að reisa þak yfir höfuð sér.
Mörgum hefur þessi stefna komið vel. Þeir hafa eflzt af erfiðleikum framkvæmda og fjármögnunar. Þeir hafa aflað sér húsnæðis eins og þeir vilja hafa það. Og þeir hafa búið sér til mikilvægt framtíðaröryggi.
En þessi leið er ekki einhlít og sízt núna, þegar verðbólgugróði íbúðalána hefur verið takmarkaður og jafnvel afnuminn. Hamar fyrstu tveggja herbergja íbúðarinnar í fjölbýlishúsi er síður kleifur en áður var.
Og dæmi eru þess, að draumurinn um þak yfir höfuðið verði að martröð, sem nísti menn á sál og líkama. Aðrir hafa ekki kjark eða hörku til að taka þátt í slagnum eða hafna einfaldlega lífsgæðakapphlaupi af því tagi.
Vandi alls þessa fólks verður ekki leystur með verðstöðvun og húsaleigulögum, þótt hvort tveggja kunni að vera nauðsynlegt af öðrum ástæðum. Allar slíkar aðgerðir fæla íbúðaeigendur frá leigumarkaðnum.
Á tveimur síðustu áratugum hefur verið lögð vaxandi áherzla á verkamannabústaði, það er íbúðir, sem seldar eru fólki með sérstaklega miklum lánum og tiltölulega þægilegum kjörum. Þetta hefur haft mikil og góð áhrif.
Færri komast þó að en vilja. Og sumir hafa ekki einu sinni ráð á þeim kjörum, sem bezt eru boðin. Til að minnka þann vanda eru húsaleigustyrkir skynsamlegasta leiðin, sem bent hefur verið á.
Með slíkum hætti væri hinum verst settu gert kleift að greiða leiguna, sem markaðurinn krefst til að íbúðir komi í ljós. Félagsmálastofnanir hafa löngum gert þetta og mættu gjarna fá fé til að færa út kvíarnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið