Húsnæðisfé er til.

Greinar

Áratugum saman hefur ríkt hér á landi pólitískur meirihlutavilji fyrir sjálfseignarstefnu í húsnæðismálum. Stefnt hefur verið að því að gera sem flestum kleift að eignast þak yfir höfuðið og þurfa ekki að sæta leigukjörum.

Stefnan hefur náð þeim árangri, að mikill meirihluti þjóðarinnar býr í eigin húsnæði. Þar eð tæplega þriðjungur þjóðarauðsins er húsnæði, felst jafnframt í þessu dreifing þjóðarauðs, sem er meiri en víðast annars staðar.

Sjálfseignarstefnunni fylgir ekki aðeins, að auðurinn færist í fleiri hendur. Hún býr líka til auð, sem ekki var til. Fólk leggur harðar að sér en ella til að eignast húsnæði og brennir síður fé í misþarfri neyzlu.

Um leið færist ábyrgðin á fleiri herðar. Að meðaltali er mun betur gengið um íbúðir í sjálfsábúð en leiguíbúðir. Ending þessa þriðjungs þjóðarauðsins verður því meiri, sem meira er um sjálfseignaríbúðir.

Þessi ágæta stefna er að bila, af því að stjórnvöldum hefur ekki tekizt að koma húsnæðislánum í rétt horf til að mæta breytingunni, sem verðtrygging fjárskuldbindinga hefur í för með sér. Fólk hefur ekki ráð á að byggja.

Fyrir kosningarnar í vor vantaði ekki loforðin frá stjórnmálaflokkunum um 80% lán til 40 ára í stað 20% lána til 26 ára, sem nú er reyndin. Því miður fólst ekki neinn veruleiki á bak við loforðin.

Samt er hægt að efna þessi loforð með því að nota fé, sem nú fer til að stuðla að of mikilli fjárfestingu á öðrum sviðum. Einnig með því að láta alla aðila sæta sömu verðtryggingu og húsbyggjendur þurfa að gera.

Með lögum stelur Seðlabankinn fyrir hönd stjórnvalda fjórðungi alls fjár, sem kemur í bankana, og kallar frystingu. Í raun eru þessir peningar notaðir í niðurgreidd lán til forréttindaaðila í þjóðfélaginu.

Hið mikla magn þjófnaðarins sést af því, að niðurgreiddu lánin voru í fyrra með neikvæðum vöxtum upp á 24%. Þetta jafngilti 400 milljón króna verðbólgugróða handa skjólstæðingum stjórnvalda og Seðlabanka.

Þjófnaðurinn stuðlar að algerlega óþarfri fjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði kúa og kinda og í togarafjárfestingu, sem er orðin miklu meiri en fiskimiðin standa undir og sem dregur hastarlega úr arðsemi útgerðar.

Samhliða er stundaður í sama skyni ýmis annar þjófnaður, sem felst í eyrnamerkingu fjármagns til sjóða og stofnana, er lána í offjárfestingu eða styrkja hana hreinlega, svo sem raunin er á í hinum hefðbundna landbúnaði.

Með Seðlabankafrystingu, neikvæðum vöxtum, eyrnamerkingu fjármagns, útflutningsuppbótum og öðrum beinum styrkjum soga yfirvöldin peninga til starfsemi, þar sem þegar er búið að fjárfesta of mikið, – og gera hina ríku ríkari.

Leysa mætti vanda húsbyggjenda með 80% lánum til 40 ára, – lánum, sem þeir geta staðið undir, þótt verðtryggð séu. Það má gera með því að taka aðeins hluta þess fjár, er stjórnvöld sóa í þá vitleysu, sem hér hefur verið lýst.

Þar með væri á nýjan leik tryggður viðgangur stefnunnar, er framar öðru hefur gert Íslendinga að sjálfstæðum eignamönnum og dreift þjóðarauðnum í fleiri hendur, – það er sjálfseignarstefnunnar í húsnæðismálum.

Jónas Kristjánsson.

DV