Húsnæðisvextirnir

Greinar

Að frumkvæði KB-banka eru húsnæðisvextir komnir niður í 4,2% og munu áfram lækka á næstu misserum, því að erlendis eru húsnæðisvextir innan við 3% og þá með stimpilgjöldum og kostnaði inniföldum. Þetta frumkvæði bankans er auðvitað rothögg á hinn séríslenzka ríkisrekstur íbúðalánakerfisins.

Fyrsti veðréttur íbúða er og hefur alltaf verið eitt tryggasta veð, sem hægt er að fá. Reynslan sýnir líka, að íbúðalán endurgreiðast betur en flest önnur lán. Þess vegna er ekkert í markaðshagkerfinu, sem bannar, að þau lán séu með lægri vöxtum og kostnaði en önnur lán í þjóðfélaginu.

Ísland var áratugum saman skilið frá umheiminum með lítið hagkerfi og okurvexti. Nú er einangrunin smám saman að rofna, þótt landsfeðurnir séu ekki nógu þroskaðir til að stýra leið okkar inn í Evrópusambandið og evruna, sem mundi færa íslenzka vexti niður í lágar tölur nálægra ríkja.

Bankamenn eru komnir langt fram úr stjórnmálamönnum í framsýni. Þeir eru farnir að tefla á alþjóðamarkaði og ná þar í reynslu og víðsýni. Innrás KB-banka á erlendan markað er forsenda þess, að bankinn hefur nú ákveðið að veita ferskum vindum og fé inn í staðnaðan fjármálaheim landsins.

Hafa má það til marks um, hversu forpokaðir við Íslendingar höfum lengi verið, að við höfum ekki bara látið yfir okkur ganga sérstaka okurvexti í landinu áratugum saman, heldur höfum við líka þolað stimpilgjöld, sem eru langt umfram kostnað ríkisins af skráningu á eigendaskiptum fasteigna.

Áratugum saman hafa stjórnmálamenn verið að hampa sér og berja sér á brjóst fyrir tillögur um breytingar á lánakerfi íbúða, hækkun hámarkslána, lengingu lánatíma, markaðsbúskap á húsnæðisbréfum og aðra miðstýringu kerfis, í stað þess að opna kerfið fyrir erlendum peningum og erlendum siðvenjum.

Áratugum saman hefur verið alsiða erlendis, hvort sem er í Evrópu eða Norður-Ameríku, að menn hafa farið eignalausir með fjármál sín í banka og látið reikna út, hvað þeir þoli mikla byrði af íbúðalánum og hvað þeir geti fengið sér dýra íbúð á grundvelli tekna sinna. Þetta er bara reikningsdæmi.

Hér er nú seint og um síðir komið sams konar kerfi. Eini gallinn er sá, að kostnaður og vextir eru enn 1-2% of háir, sem mundi lagast, ef stimpilgjöld yrðu færð niður til samræmis við stimpilkostnað og ef við gerðumst aðilar að evrópska hagkerfinu, einkum aðilar að sigurför evrunnar.

Með frumkvæði sínu hefur KB-banki opnað almenningi glugga, sem áður var bara opinn framsæknum fyrirtækjum. Vonandi átta kjósendur sig á, að þarna úti er betra peningakerfi en hér.

Jónas Kristjánsson

DV