Hvað græðum við?

Greinar

Eitt mikilvægustu lögmála auðhyggjunnar er, að samningar um kaup og sölu leiði til gagnkvæms gróða beggja samningsaðila. Verzlunin sem slík leiði til verðmætisaukningar. Fáar kennisetningar í hagfræði hafa raunar fengið eins mikla staðfestingu og þessi.

Velsæld Vesturlanda í nútíma byggist einkum á viðskiptafrelsi, sem hefur leitt til hagkvæmrar verkaskiptingar og stanzlausra uppfinninga. Verkaskiptingin og uppfinningarnar, sem viðskiptafrelsið leiðir af sér, hafa framleitt gífurlegan auð, sem ekki er frá neinum tekinn.

Samningar þjóða um fríverzlun byggjast á þessari reynslu. Þar á meðal er aðild okkar að Fríverzlunarsamtökunum og viðskiptasamningur okkar við Evrópubandalagið. Báðir þessir samningar hafa fært okkur auð, um leið og aðrir samningsaðilar hafa grætt.

Okkar stefna í alþjóðaviðskiptum hefur verið einföld. Við viljum frjálsan og tollfrjálsan aðgang með söluvörur okkar á erlendan markað, hvort sem hann heitir Evrópskt efnahagssvæði, Fríverzlunarsamtök, Evrópubandalag, Bandaríkin, Japan eða heimurinn allur.

Sjálf höfum við ekki reist tollmúra og bannmúra gegn erlendum söluvörum öðrum en þeim, sem taldar eru vera í samkeppni við hefðbundinn landbúnað sauðfjár og nautgripa á Íslandi, svo og garðyrkju. Eðlilegt er, að erlendir samningsaðilar heimti þessa múra rifna.

Eitt hið merkasta við lögmál auðhyggjunnar er, að við mundum sjálf græða mest á að hleypa erlendum landbúnaðarafurðum án tollmúra inn í landið. Við fengjum ódýrari matvöru en við fáum núna og verkaskipting þjóða eftir aðstæðum þeirra yrði skýrari en ella.

Öðru máli gegnir um kröfur um aðild að auðlindum sjávar við Ísland. Á því sviði erum við komin út fyrir umræðu um venjuleg viðskipti, um til dæmis markað fyrir markað, og farin að tala um atriði, sem er hornsteinn tilveru okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.

Í raun er ekki erfitt að verjast kröfu um aðgang að fiskimiðum. Við neitum einfaldlega að afhenda frumburðarrétt okkar og við það situr. Ef ríki Evrópubandalagsins heimta hins vegar aðgang fyrir búvöru að íslenzkum markaði, verða gagnrök okkar fljótt þrotin.

Við búum nú þegar við harla gott frelsi í útflutningi sjávarafurða okkar. Helzti þröskuldurinn felst í tollum Evrópubandalagsins á frystum og söltuðum fiski. Við viljum fá þennan toll lagðan niður, en við förum ekki að kaupa þá fríverzlun dýru verði í auðlindum okkar.

Tollar Evrópubandalagsins hafa fært okkar bónus, sem fáir gera sér grein fyrir. Tollarnir hafa hjálpað okkur til að uppgötva að nýju verðgildi ferskfisks í samanburði við verksmiðjufisk. Við höfum grætt mikið á að leggja aukna áherzlu á flytja fiskinn út ferskan.

Samt leggjum við stein í götu útflutnings á ferskfiski. Við refsum seljendum ferskfisks með því að rýra veiðiheimildir þeirra og við skömmtum leyfi til útflutningsins. Ef við ryddum þessum eigin hömlum úr vegi, yrði útflutningsgróði okkar enn meiri en hann er nú.

Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu getur fært okkur lækkun eða afnám tolla á freðfiski og saltfiski. Það er ávinningur, en svo lítill ávinningur umfram þá fríverzlun, sem við búum við núna, að ekki er unnt að kaupa hann með aðgangi að höfuðstóli íslenzks sjálfstæðis.

Ef við græðum á samningi eins og aðrir, eigum við að vera með. Ef okkur verður hins vegar meinað að græða, eigum við að standa fyrir utan Efnahagssvæðið.

Jónas Kristjánsson

DV