Í fimm ár eftir hrun hefur almenningur séð kvótagreifa og útrásargreifa fá skuldir sínar afskrifaðar. Fólk sér, að hvers kyns greifar, stóri og smáir, fá syndirnar fyrirgefnar. Að þeir fá fyrirtækin aftur á silfurfati í sínar hendur. Að þeir haga sér eins og fyrri daginn, eyða og spenna villt og galið. Um svona ástand gildir gamla spakmælið: Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það. Fólk vill sömu úrlausn mála og greifarnir hafa fengið. Spakmæli þess er einfalt: Við borgum ekki. Því er engin furða, þótt ósvífnir pólitíkusar græði fylgi á loforði um afskrift skulda strax á línuna.