Hvað kostar næsti gísl

Greinar

Okkur þætti miður, ef Íslendingur yrði tekinn í gíslingu, til dæmis á sólarströnd í arabaríki. Við mundum þó sennilega einnig líta á atburðinn af því raunsæi, að við mundum ekki heimta, að stjórnvöld okkar fórnuðu þjóðarhagsmunum fyrir hagsmuni hins óheppna gísls.

En það eru stjórnvöld á Vesturlöndum einmitt að gera hver um önnur þver, líka þau, sem hafa gortað af, að þau muni aldrei láta kúga sig til samninga við hryðjuverkamenn. Stjórn Reagans Bandaríkjaforseta er fremst í flokki í þessari stuðningssveit hryðjuverka.

Í hálft annað ár hafa fulltrúar öryggismálanefndar Hvíta hússins staðið í samningamakki við ráðamenn í Íran um skipti á gíslum fyrir hergögn. Þessar viðræður hafa verið svo leynilegar, að utanríkis- og hermálaráðuneyti Bandaríkjanna fengu ekki að vita um þær.

Fram til þessa hafa Bandaríkin, með milligöngu Ísraels, afhent Íran hergögn fyrir sem svarar 2,5 milljörðum íslenzkra króna og fengið í staðinn afhentan gíslinn Jacobsen, sem shítar í Líbanon höfðu í haldi. Hergögnin notar Íran í hinni langvinnu styrjöld við Írak.

Mikla fákænsku þurfti til að halda, að ráðamenn Írans gætu eða vildu halda leyndum þessum viðskiptasigri yfir aðilanum, sem þeir kalla djöfulinn sjálfan. Enda er komið í ljós, að þeir hafa ekki neitað sér um að gera grín að hinum bandarísku viðsemjendum sínum.

Vonandi leiða viðskiptin ekki til, að Íran sigri í stríðinu við Írak. Eldhugar Khomeinis erkiklerks hafa margoft svarið að stöðva ekki sóknina fyrr en allir vantrúarhundar hafi verið sigraðir. Óþægilegt væri til dæmis að vita þá ráða yfir olíulindum Arabíuskaga.

En hvað gera stjórnir Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda, ef fleiri gíslar verða teknir, ýmist til að láta lausa fyrir dæmda hryðjuverkamenn í vestrænum fangelsum eða fyrir fé og hergögn til að nota í styrjaldarsigrum, sem koma Vesturlöndum afar illa.

Má líta svo á, að úr þessu verði eins konar vestræn þróunarhjálp við hryðjuverkamenn og mannræningja? Þeir geti fjármagnað hermdarverk sín og náð hryðjuverkamönnum úr haldi með því að hafa alltaf á boðstólum nokkra gísla til að leysa úr haldi í skiptum.

Bandaríkjamenn og aðrir Vesturlandabúar þurfa að losna úr þessari nýju martröð. Fólk þarf að átta sig á, að lög og vald ríkisins ná ekki út fyrir landsteinana. Þeir, sem fara til útlanda, taka áhættu. Stjórnvöld þeirra geta ekki ábyrgzt öryggi þeirra.

Nauðsynlegt er, að ekki séu stunduð viðskipti með gísla, heldur séu þeir hreinlega afskrifaðir. Þetta kann að virðast kaldranalegt, en er nauðsynlegt til varnar þeim, sem annars yrðu teknir í gíslingu í framtíðinni. Og án viðskiptavonar hætta glæpamenn að taka gísla.

Í stað þess að senda öryggismálafulltrúa með tertur og vopn til Teheran, eiga vestræn ríki að standa þétt saman gegn hryðjuverkamönnum og ríkisstjórnum, sem vernda þá. Hryðjuverkamenn á að handtaka, framselja, dæma, og halda inni fullan tíma samkvæmt dómi.

Ennfremur ber að slíta stjórnmálasambandi við verndarríki hryðjuverkamanna og mannræningja, svo sem Sýrland og Íran, stöðva samgöngur við þau, þar á meðal flug, banna borgurum þeirra að koma til vestrænna ríkja og draga verulega úr viðskiptum við þau.

Að öðrum kosti myndast ný tegund gengisskráningar. Spurt verður, hvert sé verðið á næsta gísli. Fljótlega mun það hækka úr 2,5 milljörðum króna á mann.

Jónas Kristjánsson

DV