Hvað með fiskinn

Greinar

Kvikmyndin um kjarnorkustríð, sem sýnd var í sjónvarpinu um daginn, hefur endurvakið umræðu um lélegt ástand íslenzkra almannavarna. En umræðan varð ekki langvinn, því að áhugaleysi okkar á almannavörnum stingur í stúf við ríkjandi sjónarmið í nágrenninu.

Við þurfum öflugar almannavarnir, ekki bara vegna eldgosa og annarra náttúruhamfara, heldur einnig vegna atómstríðs, jafnvel þótt engar sprengjur féllu hér á landi. Við verðum að vera undir það búin, að áhrif slíkrar styrjaldar berist vítt um jörðina.

Margir telja, að sjónvarpskvikmyndin hafi vanmetið áhrif kjarnorkustyrjaldar á veðurfar og gróðurskilyrði. Um leið má segja, að hún hafi líka vanmetið getu þjóðfélags manna til að skipuleggja sig að nýju við erfiðar aðstæður og koma af stað endurnýjaðri tækniþróun.

Fyrir löngu er orðið tímabært, að Íslendingar vakni til lífsins í almannavörnum. Við lifum ekki lengur við ógnaröryggi atómsprengjunnar. Það hefur breytzt í tímahraks-óöryggi. Viðbragðstími heimsveldanna gegn kjarnorkuárás er kominn niður fyrir tíu mínútur.

Við slíkar aðstæður er enginn tími til að halda fundi, ef tölvurnar segja, að kjarnorkuárás sé skollin á. Tækniþróunin hefur valdið því, að það er ekki lengur skák heimsveldanna, heldur hættan á tæknimistökum, sem er orðin líklegasta orsök atómstríðs.

Hið fyrsta, sem við þurfum að gera okkur grein fyrir, er, hvort við höfum mat. Svo vel vill til, að við höfum meiri matarbirgðir miðað við fólksfjölda en nokkur önnur þjóð í heiminum. Birgðir okkar af búvöru eru skiptimynt ein í samanburði við birgðir sjávarfangs.

Í hverju plássi landsins er fullt af frosnum fiski og öðrum sjávarafla, sem líklega gæti nægt þjóðinni í nokkur ár, ef hún yrði sambandslaus við umheiminn og hefði enga olíu til að veiða meiri fisk. Almannavarnir hafa ekkert látið frá sér fara um þetta mikilvæga atriði.

Hvað á að gera við allan þennan fisk Við þurfum að vita, hvort geymslurnar séu öruggar gegn geislun og öðrum stríðsáhrifum. Við þurfum að búa svo um hnútana, að fiskur og önnur matvæli vinnslustöðvanna endist okkur um ófyrirsjáanlega framtíð.

Vitrænasta verkefni almannavarna væri að haga málum þannig, að geymslurnar væru öruggar gegn geislun og héldu rafmagni í hamförum. Unnt þarf að vera að olíukeyra frystingu í geymslunum, meðan verið er að koma raforkuverum og rafveitum í gang.

Í þessu skyni þurfa að vera til gangfærar dísilstöðvar og nægar birgðir af olíu, svo og rekstrarvörum til að koma orkuverum í gang eftir stóráföll og til að halda þeim síðan í gangi um langan aldur. Aldrei hefur sézt nein opinber áætlun um slík atriði.

Um alla sjávarsíðu Íslands býr fólk í járnbentum steinsteypuhúsum nokkurn veginn við hlið hinna gífurlegu matarforðabúra fiskvinnslunnar. Það ætti að vera tiltölulega ódýrt skipulagsatriði að tryggja, að lífið haldi áfram í flestum þessara byggðarlaga.

Maðurinn hefur undraverða hæfileika til að laga sig að breyttum aðstæðum. Þar að auki höfum við tækniþekkingu og mikla reynslu af skipulagningu starfa okkar. Engin ástæða er til að ætla, að mannkynið leyfi rottunni að taka völdin á jörðinni, þótt slysið gerist.

Þó er hart, að einmitt þjóð fjarlægðar, einangrunar, matarbirgða, tækniþekkingar og peninga skuli fljóta sofandi að feigðarósi skorts á almannavörnum.

Jónas Kristjánsson

DV