Hvað segja lektorar svo?

Greinar

Í fjórða skiptið í röð hafa niðurstöður síðustu skoðanakönnunar Dagblaðsins fyrir kosningar verið réttur fyrirboði um úrslit kosninganna. Og í þetta sinn var nákvæmnin meiri en nokkru sinni fyrr.

Vigdís og Albert fengu í kosningunum 0,3 prósentustigum minna en í könnun Dagblaðsins og Pétur 0,7 prósentustigum meira. Enn minni skekkja var í tölum Guðlaugs, 0,1 prósentustig. Meðalskekkjan var 0,4 prósentustig á hvern hinna fjögurra frambjóðenda.

Eins og alltaf áður var könnun Dagblaðsins nær hinu rétta en könnun Vísis. Þar var meðalskekkjan 2,3 prósentustig. Það er út af fyrir sig ágætur og frambærilegur árangur, þótt hann jafnist engan veginn á við nákvæmni Dagblaðsins.

Ekki má heldur gleyma því, að Vigdís Finnbogadóttir varð efst í könnun Dagblaðsins, en Guðlaugur Þorvaldsson í könnun Vísis. Í könnununum munaði að vísu litlu eins og í raunveruleikanum. En það munaði því, sem munaði.

Hinn kunni George Gallup skrifaði nýlega: “Úrslit kosninga eru bezti mælikvarðinn á, hversu áreiðanlegar eru vinnuaðferðir í skoðanakönnunum.” Sá mælikvarði er nú fenginn, marktækari en þokuþras lektora úr félagsfræðideild.

Menn, sem ættu að vita betur, hafa bitið sig í þá skoðun, að símaskrá sé vafasamur hornsteinn í skoðanakönnunum. Það hafa þeir frá útlöndum, þar sem hlutverk símans er allt annað annað og minna en hér á landi.

Hér eru heimasímar forsætisráðherra og seðlabankastjóra í símaskránni, alveg eins og blaðamanna og þvottakvenna. Auðvitað er símaskrá ekki fullkominn hornsteinn. En mergurinn málsins er sá, að hún hefur gefizt vel.

Menn, sem ættu að vita betur, hafa komið því inn hjá keppinautum Dagblaðsins, að lítil úrtök megi sundurgreina nánast endalaust. Þetta stafar af því, að þá skortir skilning á takmörkunum stærðfræðinnar.

Það er ekki hægt að taka fjóra stuðningsmenn eins frambjóðandans af Vestfjörðum og búa úr þeim gífurlegt fylgi hans á þeim slóðum. Né heldur er hægt að reikna það fylgi með tveimur aukastöfum, eins og Vísir gerði.

Dagblaðið hefur hins vegar þekkt takmarkanir síns litla úrtaks. Það hefur ekki reynt að sundurgreina sitt úrtak lengra en stærðfræðin leyfir. Þess vegna hafa aðrir verið einir um að reikna lítil úrtök út í hött.

Lektorar félagsfræðideildar hafa að undanförnu fjallað af töluverðum hofmóð og sáralitlum skilningi um skoðanakannanir Dagblaðsins og aðferðafræði þeirra. Allt það tal hefur verið þokukennt og lítt traustvekjandi.

Skynsamlegra hefði verið fyrir lektorana að bera saman fyrri skoðanakannanir Dagblaðsins og úrslit þáverandi kosninga. Þá hefði getað læðzt að þeim efi um, að Dagblaðið hafi þrisvar sinnum verið heppið.

Nú standa lektorar svo í holtaþoku sinni andspænis þeirri staðreynd, að skoðanakönnun Dagblaðsins náði raunveruleikanum í fjórða sinn og í þetta sinn nákvæmar en nokkru sinni fyrr. Kannski hofmóður þeirra minnki nú loks.

Hinum þarf svo ekki að svara, sem sögðu kannanirnar falsaðar eða unnar í þágu ákveðinna frambjóðenda. Þar var um að ræða eðlilega taugaveiklun ofkeyrðra starfsmanna í kosningabaráttunni. Þau ummæli eru nú öll gleymd.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið