Hvalfjarðarsamtök

Greinar

Til marks um þýlyndi Íslendinga má hafa, að engin samtök grípa til varna gegn Hvalfjarðargöngum. Fólk tuðar gegn göngunum í hornum sínum, en notar ekki samtakamátt til að koma í veg fyrir, að göngin verði að einni helztu martröð þjóðarbúsins á næstu árum.

Á fjölmennum fundi verkfræðinga fyrir nokkru komu fram rökstuddar efasemdir um, að ráðagerðir um göng væru verkfræðilega frambærilegar. Talsmenn framkvæmdanna áttu mjög í vök að verjast á þeim fundi. Samt halda stjórnmálamenn áfram að styðja göngin.

Rangar eru fullyrðingar þeirra um, að ríkið muni hafa skattahag af dæminu. Beinar og óbeinar skattatekjur ríkisins af framkvæmdum og rekstri Spalar verða minni en þær tekjur, sem ríkið tapar af minni bensínnotkun vegna minni umferðar fyrir botn Hvalfjarðar.

Verkfræðilegar og hagfræðilegar mótbátur fagmanna gegn Hvalfjarðargöngum hafa engin áhrif á framvindu málsins. Aðstandendur þess í Speli hf. og í stjórnmálunum hafa kosið að hlusta ekki á neina gagnrýni og keyra málið fram í skjóli hinnar pólitísku verndar.

Fyrir tveimur árum laug formaður fyrirtækisins að þjóðinni: “Því hefur alltaf verið ljóst og út frá því gengið, að ef í þessa framkvæmd yrði ráðizt, þyrfti hún að fjármagnast af öðrum aðilum en ríkinu, án ríkisábyrgða, og endurgreiðsla kæmi af vegtolli af umferðinni.”

Nú er ríkisábyrgð á gatinu komin upp í heilan milljarð og á eftir að hækka, því að kostnaðaráætlun er komin í rúmlega hálfan fimmta milljarð og á eftir að hækka samkvæmt reynslu af slíkum göngum í útlöndum. Skattgreiðendur eru engan veginn búnir að bíta úr nálinni.

Fyrir tveimur árum lýsti samgönguráðherra, hverjar kostnaðartölur framkvæmdanna þyrftu að vera: “Þær séu innan þeirra arðsemismarka, að ekki þurfi að koma til ríkisábyrgðir, en umferðin greiði kostnaðinn við göngin.” Þessi sami samgönguráðherra er enn við völd.

Kostnaður skattgreiðenda af Hvalfjarðargöngum er að bólgna stjarnfræðilega. Fyrir tveimur árum styrkti ríkið könnun málsins með 50 milljóna króna láni og með 70 milljóna króna láni í fyrra. Nú er ríkisábyrgð komin upp í milljarð, sem örugglega fellur á ríkið.

Ef Íslendingar væru ekki þýlyndari en aðrar þjóðir, létu þeir ekki rugl af þessu tagi yfir sig ganga hljóðalaust. Stofnuð væru samtök til að gæta hagsmuna skattgreiðenda og vegfarenda til þess að berjast gegn því, að vandræðin yrðu meiri en þau eru þegar orðin.

Annað helzta baráttumál slíkra samtaka fælist í að reyna að hamla gegn því, að veittar verði frekari ríkisábyrgðir til framkvæmdanna. Hitt baráttumálið fælist í að reyna að stuðla að því, að vegurinn fyrir botn Hvalfjarðar fái eðlilegt viðhald og endurbætur.

Alþingismenn og ráðherrar, sem bera ábyrgð á málinu, munu vafalítið reyna að draga úr viðhaldi núverandi vegar fyrir botn fjarðarins og hindra, að vegurinn verði endurbættur að því marki, sem verið hefði, ef ekki þyrfti að vernda göngin gegn samkeppni.

Því meiri sem ábyrgð ríkisins verður á Hvalfjarðargöngum, þeim mun brýnna mun pólitískum umboðsmönnum gatsins þykja að þrýsta umferð landsmanna inn í það til að hafa meira upp í ört vaxandi kostnað, til dæmis með aðgerðum gegn þjóðveginum fyrir botninn.

Stofna þarf virk almannasamtök til að vernda viðhald og framkvæmdir við veginn fyrir botn Hvalfjarðar og hindra frekari ábyrgð skattgreiðenda á göngunum.

Jónas Kristjánsson

DV