Hvalveiði-Gerpla

Greinar

Frá því fyrir daga Þorgeirs Hávarssonar hafa Íslendingar verið garpar miklir. Enn hanga menn þögulir í hvönn bjargsins og láta sig meira skipta heiður en björgun. Skemmtilegasta dæmið um þetta er hugsjón hinna vísindalegu hvalveiða, sem nýtur almennrar hylli.

Þjóðin var aldrei sátt við þá niðurstöðu Alþingis fyrir tveimur árum, að ekki skyldi mótmælt hinu alþjóðlega hvalveiðibanni. Í skoðanakönnun DV voru sex af hverjum tíu andvígir afstöðu Alþingis og aðeins fjórir fylgjandi. Meirihlutinn vildi ekki láta deigan síga.

Raunar hafði Alþingi tekið hina óvinsælu afstöðu með einungis eins atkvæðis mun. Fjöldi alþingismanna og meirihluti þjóðarinnar vildi ekki, að við létum svokallaðar bandarískar kerlingar í samtökum grænfriðunga knýja okkur til að víkja frá réttri hugsjón og stefnu.

Forustugarpur okkar í máli þessu er Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra. Með stuðningi hæfra sérfræðinga tókst honum að finna út, að vísindalega nauðsynlegt væri að veiða hundrað hvali árlega hér við land. Þetta er ein merkasta uppgötvun síðustu ára.

Sjávarútvegsráðherra hefur ekki látið við þetta afrek sitja. Hann hefur einnig bitið í skjaldarrendur og farið í víking út um allan heim til að sýna fram á, hve réttur hinn vísindalegi málstaður Íslendinga væri. Enda veit þjóðin, að vísindin efla alla dáð.

Skömmu fyrir áramótin var staðan orðin sú í huga þjóðarinnar, að í skoðanakönnun DV reyndust rúmlega átta af hverjum tíu fylgjandi fyrirhuguðum hvalveiðum okkar, en aðeins tveir af hverjum tíu á móti. Þjóðin fylkir sér um nýju hvalvísindin.

Meðan við höfum hangið í hvönninni í hetjuskap okkar á undangengnum tveimur árum, höfum við sótt styrk í ögrun útlendinga, sem skilja ekki vísindahugsjón okkar og hóta alls konar vandræðum. Það er ekki í okkar anda að láta aðra og allra sízt grænfriðunga segja okkur fyrir verkum.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra er drjúgur liðsmaður í framvarðarsveit íslenzkra garpa. Hann sagði í viðtali við DV í fyrradag: “Ég tel það vera hina mestu fjarstæðu að hætta hvalveiðum”. Síðan bætti hann við: “Mín skoðun er sú, að það eigi að NÝTA hvalastofninn undir eftirliti”.

Þar með hefur fengizt ný staðfesting á því, að bókvitið verður í askana látið. Ekki er nóg með, að við höfum sóma af því að halda fast við vísindastefnu sjávarútvegsráðherra, heldur höfum við einnig not af því, að mati forsætisráðherra.

Að vísu eru einhverjir fisksölumenn í sífellu að væla um, að hundrað sinnum verðmætari fiskmarkaðshagsmunir séu í húfi. Þá skortir hugsjónina og þeir liggja í hugarfari búðarlokunnar, sem görpum hefur jafnan þótt heigulslegt. Þeir vilja taka mark á kerlingum, í von um að geta haldið áfram að selja þeim fisk.

Tímamót urðu í málinu um áramótin. Þá tók formlega gildi ákvörðun íslenzkra stjórnvalda um hvalveiðar í vísindaskyni. Andstæðingar okkar höfðu fram að því vonað, að við mundum láta kúgast. Nú er komið í ljós, að svo er ekki. Aðgerðir gegn okkur hefjast því að nýju.

Á erfiðum tímum þjóðarhags er gott til þess að vita, að forustumenn þjóðarinnar láta slíkar sorgir ekki aftra sér frá garpskap. Mestu máli skiptir að hanga í hvönn, hvort sem fiskur selst útlenzkum kerlingum eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV