Hvalveiðum er lokið

Greinar

Hvalveiðum Íslendinga er lokið í ár og sennilega um ófyrirsjáanlega framtíð. Á öndverðri vertíð fara menn ekki í mánaðarfrí til að komu öllu í gang á nýjan leik 20. ágúst. Það er óhagkvæmt og verður ekki gert, þótt gefið sé í skyn, að veiðistöðvunin sé aðeins frí.

Ekki eru heldur neinar horfur á, að hvalveiðar verði teknar upp á næsta sumri. Í því ráða ekki úrslitum hótanir við okkur. Bandaríkjamönnum nægir að skelfa Japani, sem munu alls ekki kaupa af okkur hval af ótta við missi leyfa til veiða í bandarískri landhelgi.

Niðurstaðan var fyrirsjáanleg fyrir löngu. Hvalveiðar eru svo óvinsælar í heiminum og sér í lagi í Bandaríkjunum, að þær eru eru að heyja sitt dauðastríð. Í því skiptir engu, hvort hvalveiðar eru réttlætanlegar eða ekki. Þetta er einfalt tilfinningamál.

Hins vegar hafa tilraunir okkar til að snúa út úr hlutum gert illt verra og flýtt fyrir, að í odda skærist. Í fyrsta lagi trúir enginn úti í heimi, að hundrað hvali þurfi að veiða í svokölluðu vísindaskyni, hvort sem Alþjóða hvalveiðiráðið hefur heimilað slíkt eða ekki.

Enn verra var að halda fram, að hvalveiðar okkar fyrir Japansmarkað væru í rauninni einkum til innanlandsneyzlu á Íslandi. Steininn tók úr, þegar sérfræðingar okkar í útúrsnúningum reyndu á pappír að sýna fram á, að einungis 47% afurðanna færu til Japans.

Eftir situr í okkur hin dólgslega meðferð Bandaríkjastjórnar á máli þessu. Viðskiptaráðherra þeirra gamnar sér við refsiaðgerðir gegn bandalagsþjóð, þótt forseti þeirra hafi margsagt og segi enn, að ekki megi beita Suður-Afríku efnahagslegum refsiaðgerðum.

Gögnin, sem forsætisráðherra okkar hefur birt, sýna, svo ekki verður um villzt, að Bandaríkjamenn hafa leikið hlutverk Rambós. Þeir hafa heimtað og heimtað á hinn frekjulegasta hátt. Þeir hafa ekki einu sinni tekið mark á, að viðsemjandinn þyrfti hlé í eina viku.

Þetta er ekki einsdæmi í viðskiptum Bandaríkjastjórnar við stjórnir vinveittra ríkja. Á valdatíma Reagans hefur yfirgangur Bandaríkjanna gagnvart bandalagsríkjum farið vaxandi, einkum í viðskiptum, en einnig í hermálum og raunar öðrum samskiptum. Í þessu nýtur Reagan vaxandi einangrunarhneigðar Bandaríkjamanna og vaxandi óbeitar þeirra á útlendingum, þar á meðal Evrópumönnum, sem þeir telja vera vanþakklátt og veikgeðja lið, sem ekki nenni eða tími að verja

Svo langt gengur þetta, að vestra er krafizt aðgerða Þjóðverja og Japana til að auðvelda Bandaríkjamönnum afleiðingar af fjármálaóstjórn Reagans, sem einkum hefur komið fram í geigvænlegum halla á ríkisbúskap Bandaríkjanna og er honum sjálfum að kenna.

Í máli okkar, eins og mörgum öðrum, þar með töldu Rainbow Navigation málinu, hefur berlega komið í ljós, að Bandaríkjamenn telja, að minnsta kosti óbeint, að amerísk lög gildi um allan heim. Ríkisstjórn þeirra rekur þessa stefnu skefjalaust gegn okkur.

Við erum í rauninni heppin að mæta yfirgangi Bandaríkjanna á aðeins tveimur ómerkilegum sviðum, hvalveiðum og varnarliðsflutningum. Við erum heppin, að Rambó skuli ekki hafa heimtað viðskiptajöfnuð. Hann hefur lengi verið þeim afskaplega óhagstæður.

Allt þetta kennir okkur að umgangast Bandaríkin með varúð og halda þeim í hæfilegri fjarlægð, svo að Rambó hafi sem minnsta möguleika á að skaða okkur.

Jónas Kristjánsson

DV