Hvannalindir

Frá Kreppulóni um Hvannalindir að Lönguhlíðarleið sunnan við Lönguhlíð.

Hvannalindir eru vin í eyðimörk sanda og grjóts í 630 metra hæð. Mýri, grundir, víðiflákar og hvannir einkenna svæðið. Þarna eru vel varðveittar mannvistarleifar. eignaðar Fjalla-Eyvindi, sem talinn er hafa búið hér í nokkur ár. Þetta eru fjórir sambyggðir kofar, að hluta enn með þaki, og tveir stakir kofar. Hvannalindir fundust 1834, þegar gerðir voru út menn til að leita reiðleiðar norðan Vatnajökuls milli Austurlands og Suðurlands. Leiðin er erfið og varð aldrei alfaraleið, lá frá Brú á Jökuldal um Grágæsadal og Hvannalindir og síðan yfir aura Jökulsár á Fjöllum og Gæsavatnaleið yfir á Sprengisand.

Byrjum á mótum þjóðvega F910 og F903 hjá Kreppulóni. Förum suðsuðvestur um Krepputungu, yfir Lindaá og um fjallaskálann í Hvannalindum. Þar beygir jeppavegurinn til suðvesturs í Kverkhnjúkaskarð, þar sem fjallvegir F902 og F903 mætast.

23,9 km
Austfirðir

Skálar:
Hvannalindir: N64 53.300 W16 18.426.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Upptyppingar, Kverkfjöll, Vatnajökulsvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort