GJÁ HEFUR MYNDAZT milli raunveruleikans í landinu og yfirmanna dóms og laga. Hinir síðarnefndu sjá ekki þjóðfélag hryðjuverka, sem hefur risið neðanjarðar, þar sem handrukkarar og aðrir ofbeldismenn ganga sífellt harðar fram í aðgerðum, er kerfið getur ekki mætt eða vill ekki mæta. Nokkrir aðilar eru ábyrgir fyrir þessari gjá.
DÓMSMÁLARÁÐHERRA eyðir tímanum í drauma um að breyta víkingasveitum í hermenn, sem geti varið þjóðina fyrir hryðjuverkamönnum frá útlöndum og virðist þá aðallega eiga við friðarsinna á borð við Falun Gong og náttúruverndarfólk á borð við Greenpeace. Ráðuneyti hans hefur ekki neinn viðbúnað til að mæta alinnlendum hryðjuverkum, sem tengjast einkum viðskiptum með fíkniefni. Engin frumvörp og engar reglugerðir birtast úr ráðuneytinu og auðvitað ekkert fé.
DÓMARI í Hafnarfirði neitaði vitni um vernd gegn axarmanni, sem gekk berserksgang á veitingahúsi og hefur síðan ógnað vitnum. Hvorki dómarinn né aðrir slíkir gera sér grein fyrir, að hér á landi eru þjóðfélagshópar, þar sem hótanir handrukkara og annarra ofbeldismanna eru teknar alvarlegar en lög og réttur kerfisins. Þetta virðast sumir dómarar alls ekki skilja, enda eru dómar þeirra oft aftan úr forneskju, þegar afbrot voru annars eðlis en núna.
LÖGREGLAN tekur lífinu með ró eins og venjulega. Þegar DV er búið að birta nöfn og myndir af ofbeldismönnum, svo og viðtöl við þá, með játningum og öllu, segir löggan í viðtölum við Mogga: “Hefur enginn verið handtekinn vegna málsins” og “ekki sjálfgefið að menn séu handteknir umsvifalaust, þótt þeir séu grunaðir um brot”. Svo virðist sem hugtakið “vinir lögreglunnar” sé farið að ná til fólks, sem markvisst grefur undan lögum og rétti.
ALMENNINGUR í landinu er ekki sáttur við aðgerðaleysi dómsmálaráðherra, dómara og lögreglunnar. Vaxandi ofbeldi handrukkara og annars undirheimalýðs kallar á, að handhafar valdsins í þjóðfélaginu hætti að sætta sig við, að lög og reglur undirheimanna taki við af lögum og reglum kerfisins.
DV