Tveir þingmenn brezka Íhaldsflokksins hafa orðið nafnkunnir hér á landi fyrir afstöðu sína til landhelgismálsins. Annar er Patrick Wall, harðsnúinn andstæðingur okkar,svo sem komið hefur fram í sjónvarpsþáttum. Hinn er Laurence Reed, sem hefur oftar en einu sinni varað brezku stjórnina við afleiðingum gerða sinna.
Þótt þessir tveir menn séu á öndverðum meiði í landhelgismálinu eiga þeir það sameiginlegt að vera skynsamir og framsýnir menn. Þeir sjá báðir, að hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna mun færa Íslendingum pálmann í hendurnar. Þeir draga aðeins misjafnar ályktanir af þeirri skoðun.
Wall bendir á Íslendinga og segir: Þið getið vel beðið með 50 mílurnar og farið að lögum, unz hafréttarráðstefnan samþykkir slíka landhelgi. Reed bendir hins vegar á Breta og segir: Hvað erum við að berjast vonlausri baráttu gegn landhelgi, sem áreiðanlega verður staðfest á hafréttarráðstefnunni?
Svipaðar skoðanir, andstæðar eða meðmæltar okkur hafa komið fram í leiðurum margra brezkra blaða, þar á meðal flestra hinna virtustu. Grunntónn þeirra er, hve tilgangslítið þorska stríðið sé í ljósi væntanlegra ákvarðana hafréttarráðstefnunnar.
En hver skal þá vægja í hinu tilgangslitla þorskastríði? Við því er ekki unnt að gefa einfalt svar, annað en það, að samningar séu jafnan beztir. En nú hafa þeir atburðir gerzt á miðunum, er við teljum svo svívirðilega, að við getum ekki lengur setzt að samningaborði, á meðan brezk herskip sigla í 50 mílna landhelginni.
Við erum ekki einir um þessa skoðun. Hún hefur fengið hljómgrunn erlendis, einkum á vettvangi Átlantahafsbandalagsins. Fulltrúar Noregs og Danmerkur og embættismenn bandalagsins hafa reynt að fá Breta til að kalla herskip sín út fyrir 50 mílna landhelgina.
Flest bendir til þess, að valdbeiting brezka flotans fari almennt í taugar ráðamanna Atlantsbafsbandalagsins. Þeir átta sig ekki á, hvað kemur Bretum til að spilla einingu bandalagsins með því að haga sér svona gagnvart einni bandalagsþjóðinni.
Brezka stjórnin er ekki að vernda brezka neytendur. Það er alkunnugt, að íslenzkur sjávarútvegur er rekinn á hagkvæmari hátt en sjávarútvegur Breta og sennilega allra annarra ríkja heims. Við getum því boðið Bretum upp á betri og ódýrari fisk en þeir geta sjálfir.
Brezka stjórnin er aðeins að verja þrönga sérhagsmuni togaraútgerðarinnar við Humberfljót. Hún er ekki að verja þessa þröngu sérhagsmuni á varanlegan hátt, heldur aðeins fram á næstu hafréttarráðstefnu, sem hefst væntanlega upp úr áramótunum.
Það er von, að brezkir þingmenn og leiðarahöfundar frýi ríkisstjórn sinni vits, er hún leggur svo feiknarlega áherzlu á að vernda þrönga sérhagsmuni um ákaflega skamman tíma, að hún tekur þá áhættu að einangrast í Atlanlahafsbandalaginu og á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Ennþá hefur ekki tekizt að skýra fásinnu brezku stjórnarinnar á viðhlítandi hátt. Ef til vill er hér aðeins um að ræða þekkt atriði úr læknisfræðinni, – eftirköst eftir slæman sjúkdóm, það er að segja sálræn eftirköst eftir langvinna heimsveldisstöðu Bretlands.
Jónas Kristjánsson
Vísir