Hver mat þörfina?

Fjölmiðlun

“Óeirðalögregla í Rio de Janeiro þurfti að beita gúmmíkúlum á mótmælendur utan við Maracana-leikvanginn.” Þetta segir Mogginn á vefnum. “Þurfti” segir blaðið. Hvernig veit blaðið það? Vitað er, að lögreglan beitti þeim, en hitt þarfnast útskýringar. Hver segir, að löggan hafi þurft að beita gúmmíkúlum? Segir löggan það sjálf? Hún segir það alltaf. Sé hún heimildin, þarf að taka það fram. Mogginn getur ekki tekið ábyrgð á heimildinni, verður að nefna hana. Þetta er lítið dæmi um lélega fréttamennsku, kannski fyrirboði þess, að Mogginn segi um lögguna hér, að hún “hafi þurft” að beita rafbyssum.