Sókn okkar í orkuöflun mun verða mun hægari á næstu áratugum, ef orkusölumenn fara ekki að taka á honum stóra sínum. Undirbúningur samninga um orkufrekan iðnað hefur setið of lengi á hakanum í ráðuneyti Hjörleifs Guttormssonar.
Orkufrumvarp ráðherrans gerir ráð fyrir 2.400 gígavattstunda raforkuvinnslu umfram almenna notkun árið 1995. Á Orkuþingi um daginn töldu menn hins vegar æskilegt að fara hraðar og hafa um aldamótin 4.000 gígavattstundir afgangs til stóriðju.
Jafnvel sá hraði er nokkru minni en verið hefur. Síðasta áratug jókst raforkuvinnslan um 7,5% á ári að meðaltali. Með hraðari virkjunarstefnunni mundi hún aðeins aukast um 6,2% á ári að meðaltali áratugina tvo til aldamóta.
Þar með yrði árleg fjárfesting heldur minni þessa tvo áratugi en hún hefur verið undanfarin ár. Slíkt ætti að vera vel viðráðanlegt og að mörgu leyti æskilegt. Orkufrumvarp Hjörleifs er hins vegar allt of hægfara.
6,2% aukning á ári jafngildir nýrri stórvirkjun á þriggja ára fresti. Þá yrðu framkvæmdir loksins samfelldar, svo að unnt yrði að jafna atvinnu. Hingað til hafa óþægilegar atvinnusveiflur fylgt risi og hnigi orkuframkvæmda.
Þessi hraði mun ekki leiða til ofnýtingar. Um aldamót ættum við fimm ný orkuver og hefðum samt ekki komið í notkun nema 10.000 gígavattstundum af 64.000 virkjanlegum gígavattstundum í fallvötnum landsins, auk alls jarðhitans.
Orka er orðin svo dýr í heiminum, að það er nánast siðlaust að láta hana renna hér óbeizlaða til sjávar, engum til gagns. Vatnsorkan er ólík olíunni að því leyti, að hún eyðist ekki, þótt af henni sé tekið.
Sérfræðingar eru sammála um, að íslenzk orka sé vel samkeppnishæf og að sala á henni til orkufreks iðnaðar muni færa þjóðinni drjúgan arð. Nær allir Íslendingar, meira að segja Hjörleifur, telja slíka sölu æskilega.
Íslendingar eiga meirihluta í verksmiðjunni á Grundartanga og hafa tilboð um eignaraðild að verksmiðjunni í Straumsvík. Engin ástæða er til að ætla, að frekari uppbygging stóriðju geti ekki verið meira eða minna íslenzk.
Aðilar, sem kunna til verka, standa hins vegar ekki í biðröð fyrir utan skrifstofu Hjörleifs, allra sízt eftir árásir hans á álverið, sem hann hefði átt að bíða með, unz niðurstöður rannsóknar endurskoðenda fengjust.
Ráðuneyti Hjörleifs hefur látið undir höfuð leggjast að taka frumkvæði og kynna íslenzka orku þeim aðilum, sem gætu séð hina gagnkvæmu hagsmuni í samstarfi um orku og þekkingu, markaðsstöðu og fjármagn. Því stöndum við á nýju núlli.
Tilgangslítið er að tala um nýtt orkuver á þriggja ára fresti eða bara um 2.400 gígavattstunda afgang Hjörleifs, ef ekki er gengið til samninga um orkufrekan iðnað í íslenzk-erlendu samstarfi. Og þar stendur orkuhnífurinn í kúnni.
Við getum ekki opnað nýtt orkuver eftir þrjú ár, einfaldlega af því að viðræður, samningar, undirbúningur og smíði fyrsta nýja stóriðjuversins tekur lengri tíma, að minnsta kosti fimm ár, ef Hjörleifur fæst þá til að byrja nú.
Við gætum hins vegar brúað bilið með því að semja annaðhvort við álverið í Straumsvík eða málmblendiverið á Grundartanga um mikla stækkun. En óþægilegt er að eiga ekki fjölbreyttari kosta völ, – að orkusölumenn skuli hafa brugðizt.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið