Hverful pólitík

Greinar

Fylgi er fallvalt í nútímanum. Við sjáum það vel af miklu skyndifylgi Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur, sem náði yfir fjórðungs fylgi í skoðanakönnunum nokkrum mánuðum fyrir síðustu kosningar, en var komið á niðurleið í kosningunum og er núna nærri horfið.

Enn skarpari skil sjáum við sums staðar í erlendum stjórnmálum. Kanadíski íhaldsflokkurinn hrapaði í einum kosningum úr því að vera ríkisstjórnarflokkur landsins niður í tvo þingmenn. Það kemur þó ekki í veg fyrir, að flokkurinn geti risið til valda á nýjan leik.

Hvergi eru þessar sveiflur tíðari en í Bandaríkjunum. Þær eru lærdómsríkar, af því að breytingar á þeim bæ hafa stundum forspárgildi um breytingar á öðrum stöðum á öðrum tímum. Það er svo margt, sem gerist fyrst í Bandaríkjunum og endurómar síðar um allan heim.

Á síðustu áratugum hefur forsetum Bandaríkjanna reynzt erfitt að ná endurkjöri til síðara kjörtímabils. Johnson forseti var svo illa stæður í skoðanakönnunum, að hann hætti við að reyna. Carter forseti féll fyrir Reagan og Bush forseti féll nú síðast fyrir Clinton.

Fylgissveiflur forseta eru orðnar svo krappar í Bandaríkjunum, að þær endast þeim ekki til tveggja kjörtímabila, nema við sérstakar aðstæður. Fylgissveiflur frambjóðenda til forseta eru enn krappari. Og athyglisverðastar allra eru fylgissveiflur sjónarmiðanna að baki.

Þegar Clinton náði kjöri, mátti reikna með tímabili fráhvarfs frá markaðssinnaðri efnahags- og fjármálastefnu Reagans, sem hafði einkennt fyrra tímabil. Þetta fráhvarf gerðist ekki, heldur varð frjálshyggja öflugri í næstu þingkosningum en hún hafði verið um langt skeið.

Í rúmt ár hefur Gingrich þingforseti gefið tóninn og ýtt forsetanum í vörn. Þingið hefur samþykkt mörg lagafrumvörp, sem miða að minni umsvifum ríkisins, einkum í velferðarmálum. Forsetinn hefur neitað að staðfesta sum þeirra og leitað málamiðlana af ýmsu tagi.

Forseti, er náði kjöri sem velferðarsinni, einkum í heilbrigðismálum, hefur mátt sæta því, að kjörtímabil hans hefur einkennzt af samdrætti velferðar, einkum í heilbrigðismálum. Sveifa samdráttarstefnu í ríkisafskiptum kom snögglega og breytti stöðunni á skákborðinu.

Ætla mætti, að hin harða markaðshyggja Gingrich þingforseta væri svo öflug um þessar mundir, að forsetaefni repúblikana reyndu að flagga sem mest svonefndum Sáttmála við Bandaríkin, sem hann lét semja. En frambjóðendurnir forðast að nefna þennan sáttmála.

Forsetaefnið Buchanan hefur breytt málefnastöðunni. Sjónarmið hans ganga þvert á markaðshyggju stórfyrirtækjanna, sem styðja sáttmála Gingrich. Buchanan ræðst á fyrirtæki, sem reka starfsfólk í sparnaðarskyni og boðar aukin ríkisafskipti í utanríkisviðskiptum.

Tæpast er hægt að hugsa sér lengra bil í stjórnmálum en milli Gingrich og Buchanan. Annars vegar er frjálshyggja og markaðshyggja Gingrich og hins vegar er ríkisafskipta- og miðstýringarstefna Buchanans, sem hefur heltekið hugi margra óbreyttra flokksmanna.

Þannig hefur markaðshyggja Gingrich tæpast haft tíma til að fagna sigri yfir velferðarhyggju Clintons, þegar ný miðstýringarstefna feykir markaðshyggjunni til hliðar. Kjósendur Buchanans munu margir fara yfir á Clinton, er þeirra maður nær ekki kjöri til framboðs.

Clinton mun líklega ná endurkjöri, af því að hans sveifla er komin til baka í tæka tíð. Tímasetningar á kröppum sveiflum eru orðnar aðalmál í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV