Hversu hvítt er svart

Greinar

Sá sem flettir nýrri ársskýrslu Landsvirkjunar án þess að þekkja málavexti, gæti freistazt til að halda, að fyrirtækið væri eins konar náttúruverndarsamtök, en ekki orkufyrirtæki, sem hefur hagsmuna að gæta, sumpart í andstöðu við þekkt náttúruverndarsamtök.

Þetta er ný stefna ímyndarfræða, sem hefur rutt sér til rúms í Bandaríkjunum á allra síðustu árum. Þar taka samtök hagsmunaaðila upp nöfn eins og Skógasamtökin, Fenjasamtökin og Fossasamtökin og gefa út gróðursæla litabæklinga til að villa á sér heimildir.

Áður reyndu fyrirtæki og hagsmunaaðilar að nudda sér utan í vinsæl mál í þeirri von, að eitthvað af ljómanum færðist yfir á sig. Þannig auglýsa olíufélög, að þau séu eins konar landgræðslu- og skógræktarfélög til að fá fólk til að gleyma okri þeirra í skjóli fáokunar.

Algengast er, að fyrirtæki og hagsmunaaðilar reyni að nudda sér utan í flokkaíþróttir á borð við handbolta og fótbolta til að reyna að skapa sér ímynd frá alls óskyldum vettvangi. Nýtt er, að slíkir aðilar fari á leiðarenda og reyni að skapa sér öfuga ímynd við veruleikann.

Aðferðafræðin er þó gömul. Henni hefur bezt verið lýst í 1984, hryllingssögu George Orwell, þar sem hermálaráðuneytið hét friðarmálaráðuneyti og pyndingamálaráðuneytið hét ástarmálaráðuneyti. Heimsbókmenntirnar síast hægt inn hjá ímyndarfræðingunum.

Sú aðferð að segjast vera þverstæða sjálfs sín byggist á tvenns konar forsendum. Annars vegar, að fólk sé almennt bæði heimskt og leiðitamt, og hins vegar, að það hafi ekki aðgang að réttum upplýsingum. Báðar forsendurnar eru óneitanlega til í töluverðum mæli.

Það kemur raunar fram í kosningum, að kjósendur eru furðulega heimskir og leiðitamir. Úr því að hægt er að draga fólk endalaust á asnaeyrunum í almennum stjórnmálum, þar sem umræða er mikil, er full ástæða til að ætla, að það sé hægt í málum hagsmunaaðila.

Slíkir aðilar njóta þess stundum, að engin umræða og engin fræðsla skyggir á möguleika þeirra til að móta ímynd sína að eigin vali og jafnvel búa til ímynd, sem gengur þvert á raunveruleikann. Nokkur hluti auglýsingamarkaðarins er undir slíkum áhrifum.

Þannig hafa tóbaksframleiðendur annars vegar verið að selja ímynd útivistar og félagslyndis til að dylja raunveruleika eiturs og fíknar. Og þannig hafa þeir reynt að hanna niðurstöður rannsókna og koma í veg fyrir að niðurstöður óháðra rannsókna komist á almannafæri.

Almenningur á erfitt með að verjast ímyndum af þessu tagi. Þekkingarforði ímyndarfræðanna fer sífellt vaxandi, en neytendafræðsla og pólitísk fræðsla er af skornum skammti. Engin efahyggja eða önnur varnartækni neytenda og kjósenda er kennd í skólum landsins.

Stundum eru fjölmiðlar og einkum dagblöð að reyna að gefa lesendum sínum færi á fræðslu af þessu tagi, einkum í stjórnmálum, en minna í neytendamálum. Yfirleitt túlka hagsmunaaðilar þessa fræðslu sem “gula” pressu, æsifréttamennsku, sem ekki sé marktæk.

Þegar þessi leiðari notar ársskýslu Landsvirkjunar til að sýna dæmi þess, hversu forstokkaðar ímyndarfræðingar og umbjóðendur þeirra eru orðnir, verður það vafalaust talið stafa af illum hvötum og óbeit á viðkomandi fyrirtæki. Þannig týnist málið úti í mýri.

Líklega fær lýðræðisfyrirkomulagið hægt andlát, því að kunnátta og ósvífni misnotkunarmanna þess vex margfalt hraðar en varnir skjólstæðinga þess.

Jónas Kristjánsson

DV