Hversu miklu betri kjör?

Greinar

Sjómenn eiga að hafa betri kjör en landverkamenn. Þeir hafa verri aðbúð við vinnu og búa við meiri hættur í starfi. Og einkum þurfa þeir að sæta meiri fjarvistum frá heimili en hinir, sem geta sofið heima á hverri nóttu.

Gera mætti tilraun til að meta, hversu miklu betri kjör sjómanna ættu að vera til að bæta upp allan þennan mun. Þess konar samanburður, en miklu flóknari, hefur verið gerður í starfsmati samninga opinberra starfsmanna.

Samkvæmt nýlegum Hagtíðindum voru meðalatvinnutekjur kvæntra sjómanna 42-43% hærri en meðalatvinnutekjur kvæntra verkamanna árin 1978-1979. Samkvæmt fréttum ríkisfjölmiðla um helgina getur þetta hlutfall þó verið lægra en hér segir.

Hér verður hvorki fullyrt, hvaða tölur séu réttar, né heldur hver munurinn ætti að vera til að fullnægja öllu réttlæti. Aðeins er bent á, að þetta sé markverðara umræðuefni í sjómannasamningum en sumt, sem nú er þar þrasað.

Af þessum samanburði leiðir annað merkilegt: Breytingar á kjaramismun sjómanna og landverkamanna stafa einkum af, að framleiðni er innifalin í kjarasamningum landmanna, en utan samninga sjómanna, utan aflahlutar þeirra.

Síðasta áratug breyttist framleiðni í sjómennsku verulega. Fiskveiðilögsagan var víkkuð í 200 mílur og samkomulag náðist um nálega fullkominn einkaaðgang Íslendinga að miðunum. þetta endurspeglaðist í meiri afla á hvern sjómann.

Upp á síðkastið hefur þessi framleiðniaukning stöðvazt vegna offjölgunar skipa. Eigi að síður hefur kjaraforskot sjómanna aukizt úr 11-14% árin 1969-1970 í áðurnefnd 42-43% árin 1978-1979, hvort tveggja samkvæmt Hagtíðindum.

Á þessum sama tíma hafa kjarasamningar sjómanna yfirleitt fylgt kjarasamningum í landi. En með því að fá sama og aðrir hafa sjómenn í rauninni fengið meira en aðrir, bara af því að þeir eru á hlutaskiptum á tíma aflaaukningar.

Þetta sýnir, að samanburður prósentuhækkana í landi og á sjó segir ekki alla söguna. Fyrir sjómenn væri miklu mikilvægari þáttur í kjarabaráttu að reyna að fá sjávarútvegsráðherra ofan af offjölgun nýrra fiskiskipa.

Þriðja atriðið, sem í rauninni ætti að vera forsenda hlutaskipta, eru breytingar á samsetningu útgerðarkostnaðar. Margföldun olíuverðs á undanförnum áratug er atriði, sem hefur kollvarpað fyrra grundvelli hlutaskipta.

Útgerðin hefur ekki haft bein í nefinu eða kraft við samningaborðið til að fá þetta viðurkennt í nýjum hlutaskiptum. Ríkisvaldið hefur komið til skjalanna og vikið hluta útgerðarkostnaðar undan hlutaskiptum með olíugjaldi og fleiru.

Hér verður ekki fullyrt, hvort þetta undanskot sé of mikið eða of lítið til að koma á jafnvægi milli rekstrarkostnaðar og aflahlutar. Aðeins, að aflahlutur sjómanna á að endurspegla tilkostnað víð fiskveiðar á hverjum tíma.

Ágreiningsefni útgerðar og sjómanna ætti í rauninni að vera það helzt, hvernig túlka beri útgerðarkostnað og hvernig báðir aðilar geti við eðlilegar aðstæður fengið sómasamlegan hlut frá borði, – komizt í félagi yfir núllpunktinn.

Síðan eiga þeir að snúa bökum saman og beina því til stjórnvalda, að hin ytri skilyrði búi sjómönnum einhvern umsaminn kjaramun umfram landverkamenn, annars vegar með réttari skráningu gengis og hins vegar með markvissari takmörkun flotans.

Jónas Kristjánsson

DV