Hvert fór bjartsýnin?

Greinar

Eftir rúmlega sex ára ferð um himingeiminn er geimfarið Galileo komið á braut umhverfis reikistjörnuna Júpíter, þar sem það mun verða næstu tvö árin og væntanlega senda mikilvægar upplýsingar til jarðar. Tæplega fjögurra milljarða kílómetra leið liggur að baki þess.

Geimskotið í árslok 1989 markaði endalok stórhuga tímabils í geimkönnun, sem náði hámarki frægðar, þegar maður steig fæti á tunglið. Í árslok 1995 eru viðhorfin til sóknar út í geiminn önnur en þau voru á þessum árum. Nú er lítið um djarfar ráðagerðir af þessu tagi.

Þótt Bandaríkin séu núna miklu ríkari en þau voru á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum, hafa þau núna síður ráð á könnun geimsins eða öðrum tímamótaverkum. Almennt má segja, að vestrænar þjóðir virðist ekki lengur hafa efni á að víkka sjóndeildarhring sinn.

Bjartsýni fyrri áratuga hefur hopað fyrir svartsýni nútímans, þótt árleg landsframleiðsla vestrænna þjóða hafi aukizt. Fyrir nokkrum áratugum taldi ungt fólk sér alla vegi færa. Nú telur fólk sig sleppa þolanlega, ef það fær yfirleitt pláss við færibönd atvinnulífsins.

Fyrir þremur áratugum var ungt fólk sannfært um að geta lagt stund á hvaða háskólanám sem væri og síðan fengið góða vinnu við hæfi. Nú geta ekki einu sinni nýútskrifaðir læknar og verkfræðingar verið vissir um, að umheimurinn telji sig þurfa á þeim að halda.

Svo virðist sem auknar tekjur þjóða hafi gufað upp í enn meiri aukningu á hversdagslegum útgjöldum, þannig að kraftur til nýrra verka hefur farið minnkandi. Sérstaklega er þetta áberandi í ríkisfjármálum, þar sem peningar sogast hraðar inn og verða að engu.

Það er ekki séríslenzkt fyrirbæri, að rekstrarkostnaður þenjist út á sjálfvirkan hátt, ryðji framkvæmdakostnaði til hliðar og gleypi smám saman allt það fé, sem er til ráðstöfunar. Við sjáum þetta um allan hinn vestræna heim, sem áður hafði ráð á að láta gamminn geisa.

Hinn óbærilegi hversdagsleiki hefur tekið við af ævintýraljómanum. Núna dettur engum í hug að senda mann til tunglsins eða geimfar til Júpíters. Allir eru önnum kafnir við að gæta hagsmuna sinna í fjárlagakökum af ýmsu tagi. Vesturlönd eru orðin að músarholu.

Þegar Ísland var fátækt nýríki lét þjóðin sig ekki muna um að reisa sér á örskömmum tíma Landsbókasafn, sem stendur fegurst húsa sem minnisvarði um bjartsýna þjóð. Þegar þjóðin var orðin rík, lenti hún í sífelldum töfum við að reisa arftaka í Þjóðarbókhlöðu.

Fyrir nokkrum áratugum lögðu íslenzk fyrirtæki að fótum sér freðfiskmarkaðinn í Bandaríkjunum og áætlunarflugið yfir Atlantshaf. Nú sitja menn bara tugum saman í nefndum á nefndir ofan til að spjalla um upplýsingaþjóðfélagið. Blaðrið hefur leyst verkin af hólmi.

Enn er verið að gera góða hluti. Íslenzk fyrirtæki eru að hasla sér völl á erlendum markaði. Töluverð gróska er í listum og menningu. En það er eins og topparnir séu mun lægri en áður. Flatneskjan verður smám saman meira áberandi í flestum greinum íslenzks þjóðlífs.

Þjóðin þarf að hætta að kaupa ný hús handa ríkinu til að fylla þau kontóristum og ráðstefnuliði. Þjóðin þarf að hætta að nota ríkið eins og úthlutunarskrifstofu handa þurftarfrekum atvinnuvegum fortíðarinnar. Í staðinn á hún að kasta fé sínu í ævintýri framtíðarinnar.

Ef það verða varanleg örlög þjóðarinnar að híma yfir fjárlagahalla og framtaksleysi, verður ekki mikið rúm fyrir bjartsýni til að þeyta okkur inn í 21. öldina.

Jónas Kristjánsson

DV