Hvíldarhæli ráðherra

Greinar

Til skamms tíma var ris á bönkum og öðrum lánastofnunum í landinu. Efnisleg og siðræn vinnubrögð voru í hægfara sókn, en flokkapólitíkin á undanhaldi. Sem dæmi má nefna, að bankaráð Búnaðarbankans hafnaði í tvígang þreyttum þingmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem bankastjórum og valdi atvinnumenn.

Að vísu gekk siðvæðingin ekki svo langt, að efnisatriði ein fengju að ráða. Bankamennirnir, sem hlutu hnossið, voru ráðnir sem umboðsmenn flokkanna, sem telja sig eiga bankakerfið í landinu. Bankamenn gátu ekki orðið stjórar nema á vegum einhvers stóru flokkanna.

Minnkun spillingarinnar fólst í, að bankaráðsmenn héldu áfram að viðurkenna tilkall stjórnmálaflokka til ákveðinna bankastjórasæta, en töldu rétt að velja í þau reynda bankamenn fremur en kvígildi af Alþingi. Þetta var auðvitað umtalsverð endurbót, þótt raunar sé eðlilegt, að flokkapólitík komi ekki til greina.

Að vísu byggðist siðbótin að nokkru leyti á, að flokkarnir tveir, sem ekki “áttu” sætið, gerðu með sér samblástur um að hafna þingmanni sætiseignarflokksins og að velja í hans stað bankamann úr sama flokki. Siðbótin var ekki reist á alveg hjartahreinum grunni.

Auðvitað datt engum í hug að velja til bankastjórnar menn, sem höfðu náð árangri í atvinnu- og viðskiptalífinu. Slíkt tíðkast þó mjög í útlöndum og þykir veita ferskum anda í staðnaða banka. Dæmi eru um þetta í einkabönkunum, en alls ekki í ríkisbönkunum.

Landsbankinn og Útvegsbankinn hafa ekki verið eins heppnir og Búnaðarbankinn á undanförnum árum. Stjórnmálamenn af Alþingi og efnahagsstofnunum ríkisins hafa átt greiðan aðgang að stjórasætum bankanna tveggja, enda eru þeir afar illa reknir.

Útvegsbankinn hefur í vetur orðið ræmdur af Hafskipsmálinu og ábyrgðarlausum auglýsingum eftir sparifé. Landsbankinn er ræmdur fyrir að skulda Seðlabankanum hálfan milljarð króna í því, sem úti í bæ kallast vanskil. Af hluta þessarar upphæðar greiðir Landsbankinn upp undir 100% í refsivexti.

Síðustu daga hefur frægðarljóminn beinzt að Fiskveiðasjóði, sem undanfarinn áratug hefur staðið undir offjárfestingu í fiskiskipum. Þar hafa stjórnmálamenn af Alþingi og úr ríkisbönkunum að undanförnu verið að baka sjóðnum tjón með pólitísku byggðabraski.

Verst er, hve grátt flokkapólitíkin leikur Seðlabankann, sem ætti eðlis síns vegna að gnæfa yfir viðskiptabankana. Þar ættu eingöngu að veljast til starfa bankastjórar með óvenjulega traustan grunn í fjármálum, hagfræðum og utanríkisviðskiptum. En nú er hlaðið þar inn hverjum stjórnmálamanninum á fætur öðrum.

Ekki er hægt að sjá, að Tómas Árnason hafi átt nokkurt erindi í sess bankastjóra Seðlabankans. Og nú hefur Geir Hallgrímsson verið sendur þangað. Hann er að vísu frambærilegur maður, sem til dæmis er hægt að sýna útlendingum. En hann kemur ekki af sviðum, sem eru réttur bakgrunnur seðlabankastjóra.

Ein afleiðing þess, að Framsóknarflokkurinn og Sjálf stæðisflokkurinn misnota Seðlabankann sem hvíldarhæli fyrrverandi ráðherra, er, að traust bankans rýrnar. Enda færist í vöxt, að litið sé á bankann sem málpípu þeirrar ríkisstjórnar, sem er við völd hverju sinni.

Hina pólitísku öfugþróun bankamála á síðustu árum þarf að stöðva ­ og snúa aftur á braut hægfara siðbótar.

Jónas Kristjánsson

DV