Hvítársíða

Frá Stóra-Ási í Hálsasveit að Höll í Þverárhlíð.

Tengileið milli ferðaleiða í Borgarfirði. Kjósi menn að losna við veginn, geta þeir farið af veginum rétt utan Kirkjubóls og riðið slóð yfir Haukagilsdraga yfir í Kjarrárdal. Hvítársíða hefur löngum þótt ein búsældarlegasta sveit landsins. Þar eru sögufræg stórbýli og þar sátu ættir mann fram af manni. Frá Brúarási að telja eru bæirnir Bjarnastaðir, Kirkjuból, Hvammur, Haukagil, Sámsstaðir, Háafell, Þorgautsstaðir, Fróðastaðir og Síðumúli. Þverárhlíð er líka öflug sveit, einkum síðan laxveiði varð verðmæt eign.

Förum frá Stóra-Ási beint norður yfir Hvítárbrú og síðan með þjóðvegi 523 vestur Hvítársíðu. Við förum með þjóðveginum, sem liggur vestur með Hvítá. Handan Síðumúla eru krossgötur og þar beygjum við til norðurs eftir þjóðvegi 522. Einnig er hægt að taka af hornið með því að fara frá Síðumúla yfir Síðumúlaháls. Við förum norður eftir þjóðvegi 522 og síðan vestur eftir honum að afleggjara til eyðibýlisins Guðnabakka. Við förum þann afleggjara og niður með Þverá, fyrst í vestur og síðan suðvestur. Við Leynifitjarflóa förum við yfir ána. Höldum áfram niður með ánni á hinum bakka hennar um jaðar á túnum, sem við gætum þess að spilla ekki. Vestan við Háás komum við aftur að þjóðvegi 522 og förum hann til norðurs að mótum þjóðvegar 527, sem við förum eftir um það bil einn kílómetra að Höll.

33,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Jeppafært

Nálægir ferlar: Norðlingafljót, Hábrekknavað.
Nálægar leiðir: Kjarrá.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson